Nú skulum við bara fleygja Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á haugana!

Það er alveg greinilegt, að stór hluti stjórnmálamanna, álitsgjafa og bloggara vill ekkert gera með niðurstöður Rannsóknarnefndar Alþingis.  Það sést best á umræðunni um niðurstöður Atla-nefndarinnar og Landsdóminn.  Umræðan um lögin um Landsdóminn eru á sömu nótum og um neitunarvald forsetans í kringum fjölmiðlalögin fyrri.  Þá vildu sumir túlka stjórnarskránna eftir sínum hentugleika.  Sama á við um lögin um Landsdóminn nú.  Enginn, endurtek enginn, hafði áður gert þessar athugasemdir um lögin!  Þau voru síðast endurbætt 2008 og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins útnefndi nýjan fulltrúa sinn í hann síðastliðinn vetur!

Rannsóknarnefnd Alþingis komst að ákveðinni niðurstöðu um vanrækslu og afglöp stjórnmálamanna og embættismanna.  Og það komu líka vísbendingar um hina og þessa vafasama fjármálagerninga.  Nú vill enginn gera neitt með þessar niðurstöður og reyndar túlka þær eftir sínum hentugleika!  Engin skal sæta ábyrgð.  Enginn kannast við ábyrgð.  Enginn gerði neitt rangt.   Engin vanræksla og engin afglöp.  Hér var sem sagt allt í lagi, þangað til að ó,ó, það varð hrun.  Það er engum að kenna, ekki innanlands altént, nema kannski Sigurði Einarssyni og Sigurjóni Árnasyni. Og þeir búa í útlöndum.  Hér varð allt vitlaust, þegar Sérstakur Saksóknari vogaði sér að handtaka nokkra grunaða fjármálaafglapa!  Hvílíkur dónaskapur, sögðu menn!  Vildu að Sérstakur biði hinum virðulegu fjármálamönnum í létt spjall yfir kaffi og vínarbrauði, og kannski líka rjómatertu!  Ofan á allt fékk hann Interpól til að gefa út handtökuskipun á einn, sem mátti ekki vera að því að mæta í kaffisopann og vínarbrauðið!  Hvílík ósvífni!  Rekum bara Sérstakan!  Við skulum sko ekki benda fingri á neinn, ekki einn!

Við skulum ekki persónugera, sagði Geir!  Hér var þjóðlífið sokkið upp fyrir eyru í spillingu og siðleysi!  Stjórnmála- og embættismenn vanræktu skyldur sínar við þjóðina!  Nú virðist bara allt hafa verið í lagi!  Við skulum bara ekki persónugera eitt né neitt.  Og við skulum bara trúa því, að hér hafi ekki verið nein spilling eða siðleysi, einsog við gerðum áður.  Við skulum bara öll vera góð!

Hér gerði enginn neitt af sér, nema kannski einn eða tveir glaumgosar, Jón Ásgeir og Björgólfur Thor!  Að öðru leyti erum við öll jafn saklaus og með tandurhreina samvisku, líkt og nýborið Jésúbarnið.  Hér hefur enginn gert neitt af sér, nema helst núverandi ríkisstjórn og svo þessi Atli þarna!

Þessvegna þarf ekki að kalla neinn til ábyrgðar og ekkert uppgjör að fara fram.  Og enginn siðbót þarf að verða vegna þess að siðferð okkar hefur alltaf verið svo himinhrópandi gott!  Alltaf og á öllum sviðum!

Sem sagt:  Við skulum bara fleygja Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á haugana!  Við erum fín einsog við höfum alltaf verið, nema kannski Steingrímur og svo þessi Atli þarna!

Ekkert siðleysi, engin afglöp né fjármálaglæpir hafa nokkur tíma átt sér stað á Íslandi, stórasta landi í heimi!  Við erum best!  Svo góð, siðsöm og heiðarleg!


mbl.is Krafan byggir á vanþekkingu Ólafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Aldrei man ég til að þverpólitísk samstaða um niðurstöðu í viðkvæmu máli hafi endað í jafn einróma lofi og því lofi sem skýrsla rannsóknarnefndarinnar hlaut. Ekki man ég heldur til þess að það yrðu að ráði deildar meiningar um að skipa í þingmannanefndina samkvæmt skilgreindum lögum um undirbúning þess að kalla saman Landsdóm.

Og ekki man ég til þess að snarpar deilur eða bara neinar eftirtektarverðar umræður um fyrirbærið Landsdóm né heldur þann meinta úrelta tilgang hans sem nú er orðinn partur af trúarjátningu.

En nú eru kaflaskil. Nú er hafin enn ein barátta Alþingis við kröfur Sjálfstæðisflokksins um skilyrðislausa handhöfn á öllum skilgreindum leiðum réttlætis í íslensku samfélagi. Og skilyrðislausu afsali Alþingis á öllum dómstigum frá neðsta þrepi til þess efsta í hendur Sjálfstæðisflokksins.

Gríman hefur verið tekin niður og teningunum kastað. Það er ekki boðið upp á málamiðlun. Hún var reynd til þrautar í sáttanefnd Alþingis um lausn á aldarfjórðungs baráttu um endurheimt sjávarauðlindarinnar úr höndum LÍÚ og tapaðist þar. Yfirlýsing stjórnvalda var sú að þetta væri mikilvægur áfangasigur fyrir kröfur þjóðarinnar en við blasti að þar var enn ein tilraunin til blekkingar.

Höfum við ásæðu til að vera bjartsýn á að kröfum Sjálfstæðisflokksins um að taka ákærurnar á ráðherrana til baka verði hafnað af Alþingi?

Svari hver fyrir sig en mitt svar er nei án teljandi umhugsunar. 

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 00:52

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

....að snarpar deilur hafi orðið eða bara neinar....

Leiður ávani minn að byrja prófarkalestur eftir að bókinni hefur verið skilað í prenstsmiðjuna.

Árni Gunnarsson, 18.9.2010 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband