Menn lesi ræðu Bjarna Ben frá 28. nóvember 2008 í umræðu um þingsályktun um ríkisábyrgð á innistæðum!

136. löggjafarþing — 38. fundur, 28. nóv. 2008.
samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu 
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan af stað í kjölfarið. Þær voru, eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag og reyndar áður, grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir sem hefðu verið líklegri til að valda íslenskum skattgreiðendum minni byrðum en sú leið sem málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðileg álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum. Ef menn ætla að fara að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir til að tapa því máli ef á það mundi reyna. Þeir sem tala fyrir því að þá leið hefði átt að velja eru auðvitað tilbúnir til að gera það eftir á vegna þess að þeir geta gefið sér það í umræðunni að við hefðum sigrað þá lagaþrætu. Það er fínt að gera það í dag vegna þess að það liggur fyrir að sú leið verður ekki farin, en eru þeir hinir sömu þá tilbúnir til að fallast á að við mundum taka herkostnaðinn af þeirri ákvörðun ef niðurstaðan yrði okkur í óhag? Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.

Þess utan er líka afar líklegt, eins og m.a. hefur komið fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, að á meðan málið væri í slíkum farvegi hefðum við ekki fengið fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það liggur fyrir, og auk þess eru verulegar líkur á því að Bretarnir hefðu ekki dregið úr aðgerðum sínum á grundvelli hryðjuverkalaganna eins og þeir hafa reyndar þegar gert þó að ekki hafi þeir látið af öllum aðgerðum sínum á grundvelli laganna, þ.e. enn þá eru eignir Landsbankans kyrrsettar í Bretlandi. Þar til viðbótar má leiða líkum að því að á vettvangi samstarfsins um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið látið reyna á það hvort hægt hefði verið að hindra eða stöðva eða þvælast fyrir með einhverjum hætti frjálsum viðskiptum okkar inn á svæðið á grundvelli öryggishagsmuna. Allt eru þetta atriði sem þarf að taka með í reikninginn þegar menn eru að gera upp á milli þeirra valkosta sem við stóðum frammi fyrir í þessu máli.

Enn þá hefur engu verið lokað og ég hef ekki heyrt í sjálfu sér í umræðunni í dag mikla gagnrýni á hin sameiginlegu viðmið vegna þess að þau eru tiltölulega opin, það er hægt að fella meira eða minna allt það sem nefnt er hér í umræðunni í dag undir orðalagið í þessum sameiginlegu viðmiðum, þ.e. að fullt tillit verði tekið til þeirra efnahagslegu erfiðleika sem eru hér á landi og jafnframt að okkur verði gert kleift að endurreisa hér fjármálakerfið. Hugmyndir sem fram koma í umræðunni í dag um að við þurfum að setja þak á mögulegar árlegar greiðslur okkar til endurgreiðslu á lánum sem taka þarf til að standa undir þessum skuldbindingum rúmast alveg innan þessa orðalags sem er að finna í sameiginlegu viðmiðunum. Hið sama gildir um það að vera með sérstaklega langan lánstíma eða reyna að koma inn samkomulagi í þessu sambandi um mögulega endurskoðun á kerfinu.

Það er auðvitað alveg augljóst, bæði af því sem kommissjónin hefur sagt nú þegar, þ.e. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins — þeir eru nú þegar komnir fram með tillögur um að breyta innstæðutryggingarkerfinu í Evrópusambandinu, hækka tryggingarnar verulega, taka úr sambandi það sem maður getur kannski kallað ákveðna sjálfsábyrgð og ná fram meiri einsleitni í kerfinu á öllu svæðinu. Einnig hefur komið fram mjög rík gagnrýni frá breska fjármálaráðherranum, Alistair Darling, þar sem hann gagnrýnir það að bresk stjórnvöld og þar af leiðandi breskir skattgreiðendur þurfi að sitja uppi með kostnaðinn af því að tryggja innstæður vegna dótturfélaga erlendra banka sem starfa með dótturfélög í Bretlandi. Það er mikil óánægja með þetta.

Við skulum hafa í huga í þessari umræðu að íslensku bankarnir störfuðu ekki eingöngu í gegnum útibú á erlendum vettvangi. Sumir íslensku bankanna sóttu innlán í gegnum dótturfélög. Hvað hefur gerst í tilfellum þessara dótturfélaga? Það hefur lent á innstæðutryggingarsjóðum í Sviss, í Bretlandi, í Þýskalandi og víðar þar sem íslensku bankarnir störfuðu, það hefur lent á ríkisstjórnunum í viðkomandi löndum að fjármagna innstæður tryggingarsjóðanna til að þeir gætu staðið undir endurgreiðslu lágmarkstryggingarinnar þar. Hún hefur ekkert alltaf verið 20.000 evrur, í sumum tilfellum miklu hærri upphæð. Þær ríkisstjórnir sem við höfum verið í viðræðum við hafa tekið á sig gríðarlega miklar skuldbindingar og örugglega í einhverjum tilvikum skuldsett sig til að geta risið undir endurgreiðslum út af innstæðum til dótturfélaga íslensku bankanna. Þetta held ég að menn þurfi að hafa í huga í þessari umræðu, vandanum er ekki að öllu leyti velt hingað heim vegna þessa kerfis.

Þegar heildarmyndin er skoðuð tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli. Sannarlega hefur verið í mörg horn að líta, það hefur verið úr mjög vöndu að ráða, hagsmunum hefur verið þvælt saman. Auðvitað erum við ósátt við það og höfum kvartað undan því opinberlega, og það er að mínu áliti starfsemi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til minnkunar að lánsbeiðni okkar þar skyldi hálfpartinn hafa verið tekin í gíslingu vegna óskyldra mála. Það finnst mér til minnkunar fyrir sjóðinn og það sem hann stendur fyrir, og ekki síst á það við vegna þess ástands sem hér ríkti og það var til mikils tjóns fyrir okkur að málið skyldi dragast svo vikum skipti vegna þessa.

Ég held að það sé augljóst að í framtíðinni muni Evrópusambandið, ekki bara vegna þeirra tillagna sem nú þegar eru komnar fram heldur vegna þess augljósa galla sem er á innstæðutryggingarkerfinu, taka það til gagngerrar endurskoðunar. Þess vegna er skynsamlegt fyrir okkur að halda öllum fyrirvörum varðandi réttarstöðu okkar þegar til slíkrar endurskoðunar kemur í framtíðinni. Eina vitræna leiðin fyrir Evrópusambandið og þar með allt Evrópska efnahagssvæðið er að tengja innstæðutryggingarsjóðina saman vegna þess að þegar það hefur verið gert er fall þriggja til fjögurra banka, þó að þeir séu allir í sama landinu, ekkert vandamál fyrir kerfið í heild sinni. Þetta er 500 milljóna svæði sem getur vel greitt úr slíku en einstök ríki geta ekki risið undir hruni bankakerfisins.

Tillaga til þingsályktunar

um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1.    Lagaleg afstaða.
    Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120/2000 begin_of_the_skype_highlighting              120/2000      end_of_the_skype_highlighting um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast.
    Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

2.    Pólitísk staða.
    Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollendingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.

3.    Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
    Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
    Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.

Það er svo spurning, hvernig stendur á því að núverandi ríkisstjórn tók upp stefnu fyrri ríkisstjórnar óbreytta í Icesave-málinu, einsog reyndar fleiri málum.  Stefnan í endurreisn samfélagsins alls og sérstaklega fjármálakerfisins, er einsog snýtt útúr nös fyrri stjórnar!  Það er einsog Bjarni og Steingrímur hafi skipst á ræðum við stjórnarskiptin!


mbl.is Sagðir misnota stöðu sína í stjórn AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Ræðan hans skiptir engu máli hvað varðar ríkisábyrgð á Icesave.  Menn geta sagt alla hluti og skrifað undir alla hluti, það gerir íslenska alþýðu og ríkissjóð ekki ábyrg fyrir Icesave.  Icesave er ólögleg krafa bresku og hollensku ríkisstjórnanna og bakhjarls þeirra, Evróppusambandsins.  Og Samfylkingarinnar.  Líka, það gerir okkur ekki heldur ábyrg fyrir Icesave að e-r menn úti í bæ hati Sjálfstæðisflokkinn út í hið óendanlega.

Elle_, 8.9.2010 kl. 15:03

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Gott að minna á þetta Auðun. Málið snýst ekki endilega um það hvort menn hati Sjálfstæðisflokkinn Elle mín kæra vinkona.

Það er aftur á móti mikilvægt að sjá þetta Icesave mál í réttu pólitísku ljósi ef á annað borð á að varpa á það flokkspólitísku ljósi. Margir - og þar á meðal ég hef haft í frammi mörg sáryrði í garð Steingríms J. og hvernig hann hefur tekið á málinu. Ekki er ég að draga neitt af því til baka núna. En málið á sér aðrar hliðar.

 Þar er komið að ábyrgðarlausum þætti Sjálfstæðsmanna. Þeir hafa farið hamförum við að klína þessu vandræðamáli sem þeri sjálfir bera á höfuðábyrgðina og leiddu síðan sjálfir inn á borð íslenska ríkisins ekki minna en þrisvar sinnum.

Ég er ekki að svara fyrir Auðun en gef mér það að honum, líkt og mér þyki "stungin tólg" þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn í áróðursbaráttu við að koma klúðrinu á Steingrím J. Sigfússon og Svavarsnefndina sem löguðu þó talsvert þetta fjandans mál frá þeim farvegi sem Sjálfstæðismenn skildu við það í.

Það er pólitísk togstreita á Íslandi rétt eins og í öllum lýðræðisríkjum og lýðræðinu er enginn sómi sýndur með því að leyfa ábyrgðarlausum stjórnmálaleiðtogum að ljúga sig frá eigin verkum.

Og þetta gildir jafnt um þá báða Steingrím J. og Bjarna B.

Árni Gunnarsson, 8.9.2010 kl. 15:21

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

...þessu vandræðamáli sem þeir sjáfir bera á höfuðábyrgðina.....á Vinstri græna.

Árni Gunnarsson, 8.9.2010 kl. 15:22

4 Smámynd: Elle_

Árni, ekki er ég heldur að verja Sjálfstæðisflokkinn og mun aldrei gera.  Hinsvegar er það rangt að Steingrímur hafi lagað málið.  Hann lagaði ekki neitt.  Hann gerði málið miklu verra en það nokkurn tíma var.  Undir hans blekkingum, svikum og valdstjórn með Jóhönnu-flokknum, kom FYRSTI nauðungarsamningurinn í Icesave, fullkomin kúgun gegn íslenskri alþýðu, börnum og gamalmennum landsins.

Elle_, 8.9.2010 kl. 15:30

5 Smámynd: Auðun Gíslason

Takk Árni minn!  Enn einu sinni erum við nokkuð sammála um kjarna málsins!

Elle Ericsson má ennfremur benda á, að Tillaga til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingumvegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu
var samþykkt af þáverandi ríkisstjórnarflokkum 5. desember 2008.  Það er því engum blöðum um það að fletta, hvaða skoðanir forystan hafði á þessum tíma. 

Elle!  Það er afskaplega furðuleg hugmynd að einhver hati stjórnmálaflokk.  Nema það sé þannig með þig, að þú hatir alla aðra flokka en Sjálfstæðisflokkinn.  Hann elskir þú?  Ég tel alveg sjálfsagt að halda þessum sögulegu staðreyndum um feril málsins til haga.  Enda varpa þær ljósi á þá stöðu sem málið hefur verið í allar götur síðan um haustið 2008!  Þannig skiptir ræða Bjarna og framlagning og samþykkt þessarar þingsályktunartillögu máli!  Hvorutveggja skýrir ferið málsins og segir okkur hvernig stjórnmálamennirnir haga skoðunum sínum eftir því hvernig vindur blæs hverju sinni!  Þessvegna spyr ég líka, hvort Bjarni og Steingrímur hafi skipst á ræðum.  Hvað varðar Samfylkinguna þá er ég þeirrar skoðunar, að hún sé einskonar annað sjálf Sjálfstæðisflokksins!  Og SF hef ég aldrei stutt, frekar en Sjálfstæðisflokkinn!  Og til að upplýsa þig enn frekar, þá sagði ég mig úr Vg fyrir nokkrum mánuðum.  Einsog lesa má um í eldri færslum og gömlu bréfi á heimasíðu Ögmundar Jónassonar!

Auðun Gíslason, 8.9.2010 kl. 15:38

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Elle!  Að samningur Svavars-nefndarinnar sé fyrsti samningurinn sem gerður var vegna Icesave er beinlínis rangt. Í nóvember 2008 var undirritaður samningur við EU fyrir hönd Breta og Hollendinga, þar sem íslensk stjórnvöld undirgangast ábyrgð á Icesave og fallast á túlkun EU á reglum um innistæðutryggingarnar.  Í framhaldinu eru ofangreind þingsályktunartillaga samþykkt.  Áður höfðu verið undirrituð viljayfirlýsing/minnisblað eða drög að samningi við Hollendinga með mun hærri vöxtum og öðrum samningstíma en Svavarssamningurinn gerir ráð fyrir.  Svavars-nefndin byggir  svo samningsvinnu sína á þessum gerningum, því miður.  Og er furðulegt að núverandi ríkisstjórn skyldi taka upp stefnu stjórnar Geirs H, Haarde og Ingibjargar Sólrúnar í málinu.  Mál hafa hinsvegar verið að þróast í óvæntar  áttir undanfarið óháð fyrri hugmyndum íslenskra stjórnmálamanna.  Breska ríkisstjórnin hefur ekki breytt kröfum sínum í Icesave-málinu.  En það er alveg klárt að tíminn hefur unnið með málstað Íslands og mun vonandi gera áfram.

Auðun Gíslason, 8.9.2010 kl. 15:52

7 Smámynd: Elle_

Auðun, ég sagði ekki fyrsti Icesave-samningurinn, ég sagði FYRSTI NAUÐUNGARSAMNINGURINN Í ICESAVE.   Ríkisábyrgð á Icesave var aldrei samþykkt fyrr en hinn ömurlegi Svavarssamningur var gerður svikullega og með valdníðslu Jóhönnu-stjórnarinnar.  Þú ert að vísa í MOU (Memorandum of Undarstanding) ellegar samninginn um Brusselviðmiðin.  Það var ekki ríkisábyrgð.  Þið megið ekki rugla saman samkomulagi og samningi með vísan í lög eða ólögvarinni ríkisábyrgð á Icesave.  Þar liggur gríðarlegur munur og hvað sem ykkur er illa við Sjálfstæðisflokkinn.  Ætla ekki að fara að ræða neina vexti af ólöglegri kúgun.   Við erum ekki ábyrg fyrir Icesave.

Elle_, 8.9.2010 kl. 17:07

8 Smámynd: Elle_

Ætlaði að skrifa: Þið megið ekki rugla saman samkomulagi og samningi með vísan í lög og ólögvarinni ríkisábyrgð á Icesave.

Elle_, 8.9.2010 kl. 17:10

9 Smámynd: Auðun Gíslason

Ræða Bjarna og þingsályktun um ábyrgð ríkisins skipta máli vegna þess að þar kemur fram sama skoðun og stefna og í samningi Svavars-nefndarinnar.  Einnig skiptir samningurinn/samkomulagið við EU frá  í nóvember 2008 máli.  Þar gengst íslenska ríkisstjórnin undir þennan sama skilning.  Icesave datt ekki af himnum ofan í febrúar 2009, einsog margir tala.  Núverandi ríkisstjórn fékk það í fangið ásamt fleiri afglöpum fyrri ríkisstjórna!  Gleymum því ekki!  Haustið 2008 var málið sett í ákveðinn farveg og því miður var haldið áfram með það í sama farvegi, en ekki breytt um stefnu.

Auðun Gíslason, 9.9.2010 kl. 12:39

10 Smámynd: Elle_

Auðun, ég er alveg sammála þér að ræða Bjarna Ben. skipti máli.  Ræðan var hláleg og ömurleg að mínum dómi.  Eina sem ég meinti var að ræðan hans og hvaða orð sem embættismenn og ráðherrar notuðu, gera okkur, alþýðu landsins og ríkissjóð, ekki ábyrg fyrir Icesave.  Málflutningur Bjarna Ben. hefur ætið verið aumur og 50/50 með og 50/50 móti Icesave.  Hann stendur ekki almennilega í lappirnar og ég skrifaði um það eftir að ég las pistilinn þinn um ábendinguna í ræðu hans: SAMTÖK GEGN ICESAVE. 

Og ég veit að Icesave datt ekki af himnum ofan.  Hinsvegar gleymum ALLS EKKI að Samfylkingin, hin aumi flokkur og valdníðsluflokkur að mínum dómi, var LÍKA í síðustu ríkisstjórn og löngu þar á undan, þó þau og hollustumenn þeirra hagi sér langoftast eins og flokkurinn hafa bara ekkert verið þarna.  Sem er fáránlegt, þau voru þarna, það er ég viss um.  Og eru enn þarna að skemma.  Og við mættum líka muna að menn voru líklega í sjokki við fall bankanna.   Það hafði aldrei fyrr gerst og menn vour alls ekki búinir á átta sig á hvar við stæðum lagalega.  Og það notuðu bresku og hollensku ríkisstjórninar, enda vanir að níðast á minni ríkjum um allan heim. 

Málflutingur um hvað Sjálfstæðisflokkurinn var vondur og gerði mikið vitlaust er ekki rangur.  Hinsvegar megum við ekki skemma fyrir okkur sjálfum með því að afsaka á nokkurn hátt svívirðilegan framgang núverandi stjórnar í Icesave-málinu öllu.  Slíkur málflutningur hefur akkúrat gert það að verkum að núverandi stjórn kemst upp með ótrúlegustu hluti gegn okkur.  Fram ætti að fara rannsókn á framgangi þeirra í Icesave.   Vegna hins svívirðilega framgangs í málinu kalla ég stjórnina ICESAVE-STJÓRNINA.  

Elle_, 9.9.2010 kl. 17:59

11 Smámynd: Elle_

Hinn aumi flokkur ætlaði ég að skrifa.

Elle_, 9.9.2010 kl. 18:01

12 Smámynd: Auðun Gíslason

Það er enginn að afska neitt hér.  Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru háskahreyfingar og völd þeirra beggja eru því miður staðreynd!  Að reyna að afsaka hegðun fyrri ríkisstjórnar með sjokki er fáránlegt.  Ríkisstjórn Geirs og Imbu höfðu verið í bullandi afneitun og réttlætingum frá árinu 2006, en þá strax fóru viðfaranir og athugasemdir að berast um alvarleika ástandsins!

Mistök núverandi stjórnar felst fyrst og fremst í að hafa ekki sett nýja stefnu í flestum málum.  Stjórnin tók upp stefnu fyrri stjórnar í Icesave, sem fleiri málum.  Að tala um svívirðu er heldur stórt uppí sig tekið og í besta falli til þess sett fram til að fela vanrækslu fyrri ríkisstjórnar!

Auðun Gíslason, 9.9.2010 kl. 18:08

13 Smámynd: Elle_

Nei, ég er ekki að fela neitt, enda hef hvorugan flokkinn stutt og fullkomlega óflokksbundin.  Kaus VG síðast og var illa svikin.  Finnst ekki óeðliegt að halda að menn hafi verið í sjokki við fall bankanna, ekki þar á undan.  Við verðum að vera ósammála um sjokkið og svívirðu núverandi stjórnar.  Stjórn sem er að mínum dómi og ýmissa svívirðilegasta og versta ríkisstjórn í manna minnum.  Nú hefur þú síðasta orðið. 

Elle_, 9.9.2010 kl. 18:28

14 Smámynd: Auðun Gíslason

Síðasta orðið?  Sjokkið var óþarft.  Þau höfðu haft 16 mánuði til að bregðast við aðvörunum en kusu afneitun og réttlætingu!  Hrunið átti ekki að koma Geir og Imbu á óvart.  Þau kusu að loka augunum.  Mottó Geirs:  það er kannski best að gera ekki neitt!

Auðun Gíslason, 9.9.2010 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband