Stoppum upp ríkistjórnina!

Ég er farinn að hafa áhyggjur. Svo virðist sem að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sé búin að öðlast sama sess í hugum margra og herstöðin heitin á Miðnesheiði. Tilhugsunin um að missa herinn úr landi olli mörgum áhyggjum og þegar herinn loksins hypjaði sig misstu sumir um stund þá öryggistilfinningu sem öllum mönnum er nauðsynleg. Agli Helga fannst óhuggulegt að sjá herstöðina svona mannlausa. Sama virðist eiga við um þessa ríkisstjórn og herinn. Það vekur mörgum ugg í brjósti að hugsanlega sé hún á förum og sjáist ekki meir. Menn verða aumir í buddunni og óöruggir um framtíðina. Þeim verður hugsað til veðlánanna sinna og yfirdráttanna. Og Egill fær áhyggjuhrukku milli augnanna. Hann er að verða einskonar persónugervingur hins værukæra íslenska smáborgara. Allar breytingar eru til ills. Þær valda óróleika í sálinni og ugg fyrir brjósti. Jafnvel þótt vitað sé að þegar til lengdar lætur verði þær öllum til góðs. Líka hinum værukæra smáborgara. Síðan herinn fór hefur enginn ráðist á landið og alkaída hefur ekki barið að dyrum. BB hefur að vísu tvisvar lent á spítala en varla er samband þar á milli. Megi hann ná heilsu sinni fljótt og vel. Hræðslupólitík notfærir sér þennan ótta mannsins við breytingar. Auglýsingar í þeim anda hafa mætt manni undanfarið í blöðunum og hér á blogginu. Auglýsingar framsóknar um ekkert stopp streyma um skjáinn og Jón ráðherra er búinn að útfæra þær enn frekar í málflutningi sínum. Á honum má skilja að allt fari hér í stopp og frjósi fast fari stjórnin frá völdum. Búðir verði varla opnar og öllu framleiðsla og viðskipti stöðvist. Þó segist hann sjálfur ekkert skilja í þessu stoppi sem spurt var um í skoðanakönnun um daginn. Reyndar skil ég ekkert í þessu stoppi sem Jón ráðherra er að tala um. Ég er alvag viss um að sauðkindin heldur áfram að jórtra og framleiðslan heldur áfram og viðskiptin blómstra sem fyrr þó stjórnin falli og önnur taki við. Ríkisstjórnir hafa ekki þau áhrif sem þær höfðu áður. Atvinnulífið hefur losnað undan oki ríkisvaldsins og lýtur sínum eigin lögmálum í dag þökk sé EES samningnum. Og mannlífið hefur sinn vanagang í herlausu landi þó ríkisstjórnir komi og  fari. Það sem stjórnarskipti getur breytt er aftur á móti það sem snýr að ríkisvaldinu nefnilega velferðarkerfið, menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Fyrir hverja viljum við að þetta þjóðfélag sé. Eigum við að reka hér velferðarþjóðfélag samhjálpar og samtrygginga eða þjóðfélag þar sem hver sér um sig. Norrænt kerfi velferðar eða amrískt sérhyggjusamfélag. Það er spurningin. Viljum við að allir geti gengið hér í skóla og menntað sig eins og hann vill eða viljum við að það sé aðeins á færi fárra. Það er spurningin. Viljum við að allir hafi aðgang að heilbrigðiskerfinu eða á buddan að ráða því. Það er spurningin. Þessi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og framsóknar hefur hægt en bítandi verið að koma hér á amerísku frjálshyggjukerfi þar sem sérhagsmunahyggja ræður för. Þetta þarf að stöðva áður en áfram verður haldið. Stoppum upp ríkisstjórnina!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband