Færsluflokkur: Bloggar

"Það er alltaf gaman þegar vel gengur!"

Af einhverjum ástæðum duttu mér í hug þessi orð gamals skipsfélaga, þegar ég sá fyrirsagnirnar á bloggum um þessa frétt. Við vorum á netum og lítið hafði fiskast lengi. Þá loksins kom einhver reytingur í netin og kallinn var í kæti sinni eitthvað að grobba sig í glugganum. Þá snéri þessi ágæti Borgfirðingur (eystri) sér við og mælti þessa fallegu orð. Og glugganum var skellt.

Sumir kætast og aðrir eru með úrtölur og spá einhverjum hrakförum. Munurinn á þessum könnunum, þessari og þeirri sem stöð2 birti 11.4  er ótrúlega mikill. En einsog maðurinn sagði: Það er alltaf gaman þegar vel gengur!


mbl.is VG og Sjálfstæðiflokkur auka fylgi sitt í Suðurkjördæmi á kostnað Framsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögmálssiðfræði eða kærleikssiðfræði? Hvað vilt þú?

   Hvað oft frelsarinn sniðgekk þær reglur og þau lögmál sem ríktu í samfélagi Gyðinga á hans tíma vitum við ekki, en um nokkur slík dæmi má lesa í Guðspjöllunum. Þetta gerði hann til að undirstrika boðskap sinn. Mér er alveg óskiljanlegt, að við kristnir eigum að lifa í skugga lögmáls Gyðinga. Ætli færi þá ekki að fara um marga. Á að lífláta fólk í samræmi við lögmálið, þar sem það á við samkvæmt lögmálinu? Eiga konur að þola að undirgangast þær reglur, og framkomu, sem viðhafðar voru skv. Gamla Testamentinu? Eða eigum við að týna til eitthvað sem hentar okkur í það og það skiptið? Má nefna afstöðina til mála eins og stofnfrumurannsókna, afstöðuna til samkynhneigðra, prestsþjónustu kvenna o.s.frv. Kannski má eiga von á sömu afstöðu til þeirra sem uppvísir verða af hórdómi, til réttinda kvenna, til mágaskyldunnar, til sjúkra og fatlaðra (þeir eru taldir syndarar, þessvegna eru þeir sjúkir eða fatlaðir). Sjálfsagt mætti halda áfram til eilífðarnóns, en mig brestur þekkingu til að telja upp allar þær reglur og lög sem gamla lögmálið býður mönnum að búa við. Mér skilst að lögmálsþrælkunin leggi á menn að fylgja nær 600 reglum og lögum í sínu daglega lífi, og þá er ekki verið að tala um mannanna lög, heldur lög og afleiddar reglur gamla lögmálsins. Kristnir lögmálsdýrkendur leggja mikla áherslu á gamla lögmálið, en virðast gleyma nýja lögmálinu sem Jesú færði okkur, að minnsta kosti er þeim ekki jafn tíðrætt um það sumum. "Kjarni kenningarinnar um guðsríkið, að það væri komið í Jesú og með honum, varð til þess að Jesú hafnaði lögmáli gyðinga, eða uppfyllti það eins og hann sjálfur sagði.......Eina boðorðið sem einhverju skipti að dómi Jesú, var að elska guð og náungann eins og sjálfan sig, hið tvöfalda kærleiksboðorð. Í stað lögmálssiðfræði kom kærleikssiðfræði. Áður hafði maðurinn þurft að fylgja lögmáli til að frelsast. Nú skyldi kærleikurinn settur í öndvegi" (Þórhallur Heimisson, Hin mörgu andlit trúarbragðanna).

Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti. Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn. (Orðkviðirnir 10, 12-13). Þó ekki vöndur lögmálsins eða hvað?                              

                                                                       


Sannleikurinn ?

Það rifjaðist upp fyrir mér við lestur blaðanna í morgun að meðalmaðurinn lýgur að sjálfum sér að meðaltali ca. 150-200 sinnum á dag. Hvers vegna þetta rifjaðist upp læt ég ósagt!

Heimili og skóli-landssamtök foreldra? Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist þessi samtök  vanmeta bæði börnin og foreldrana; sérstaklega börnin. Það sem ég hef kynnst þessum samtökum, sem foreldri, minnir óþægilega á frásagnir frá Austur-Þýskalandi í denn. Kórónan er  plagg sem lá frammi á foreldrakynningu 1. bekkjar (5-6 ára barna) haustið 2005. Þar áttu foreldrar að skrifa undir samning við börnin sín um að framfylgja reglum um útivistartíma barna (sem lögreglan setur). Samningur þessi skyldi síðan hanga uppi í skólastofu barnanna og börnin áttu að fylgjast með því hvort pabbi og mamma brytu lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Sæll og blessaður, Ullrich, wo bist du, langt síðan þú hefur sést! Grínlaust þá birtist þetta félag mér, sem foreldri, í illagrunduð plöggum og yfirlýsingum þar sem talað er niður til fólks (barna og fullorðinna) í tilskipanastíl! Landssamtök foreldra? Eru einhverjir í þessu félagi sem skráðir félagar og af sjálfsdáðum? Eða er þetta eitthvert pelskerlingafélag, svona eins og vetrarhjálpin?

Vestfirðir. Vestfirðingar fá 10 milljónir á ári úr ríkissjóði til að laga hjá sér atvinnulífið, sem er að veslast upp vegna athafna  og þráhyggju stjórnmálamanna. Allt hefur drukknað í ofuráherslum á stóriðju í þessu volaða landi. Aðstoð við stofnun og uppbyggingu smáfyrirtækja, sem víðast hvar er vaxtarbroddurinn í atvinnulífi þjóða, er svo víðsfjarri í allri vitleysunni hér. Stóriðja og ótaldir milljarðar í styrki til landbúnaðar (já, vekjum geirfuglinn upp frá dauðum) er það sem steintröllunum dettur í hug. Nú eru þau búin að stofna nefnd um Vestfirði, því heimamönnum er ekki treyst til að vita hvað þeir vilja og þurfa.  Hvað verður það næst? Vinafélag Vestfjarða eða Styrktarfélag Atvinnulamaðra á Vestfjörðum?   


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband