24.10.2007 | 00:14
Sveitamannaguðfræði?
Vegna gagnrýni á hina nýju þýðingu á Biblíunni ákvað ég að endurbirta þessa færslu en þar sést vel hve "gagnrýnin" er oft órökrétt og beinlínis röng!
Spjátrungurinn og sveitapresturinn, Geir Waage, var með gamalkunna yfirburðatilburði í Kastljósinu og var honum tíðrætt um orðið "monogenes" sem hann sagði þýða "eingetinn". Ég gerði mér það til gamans að googla þetta orð. Þá kemur nú ýmislegt annað í ljós, sem stangast á við þá gömlu íslensku sveitamannaguðfræði, að María Mey hafi getið Guðssoninn ein, og því sé hann eingetinn. Þetta hefur vafist fyrir mörgum, sérstaklega trúlausum, því flest vitum við að það þarf tvo til. En orðið "monogenes" hefur ekkert með þetta að gera, enda er þetta útúrsnúningur.
Geir er mjög upptekinn af Jh 3:16; "Því svo elskaði Guð heiminnn, að hann gaf son sinn eingetinn (monogenes)..." Í nýju þýðingunni "einkason" (monogenes). Í "frumtextanum" er orðið "monogenes" notað að minnsta kosti þrisvar sinnum annarsstaðar í Nýja Testamentinu. Í Lk 7:12 "Þegar hann nálgaðist borgarhliðin, þá var verið að bera út mann, einkason (monogenes) móður sinnar..." Í Lk 8:42 "Því hann átti einkadóttur (monogenes)..." Í 1. Jóhannesarbréfi 4:9 "Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent einkason (monogenes) sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann (gamla Þýðingin)" Því hef ég skáletrað Jh 4:9, að sumir hafa viljað meina að öðruvísi horfði við um orðið "monogenes" í samhengi við son Guðs.
Einnig er til í dæminu að "monogenes" gæti þýtt hinn "getni" Guð, andstæða við hinn Eilífa Guð, sem eðli málsins samkvæmt er ekki "getinn" heldur eilífur.
Í Jh 1:14 "Og Orðið (Guð) varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum." Ennfremur Jh 1:1-4 "Í upphafi var Orðið, og orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því." Og Jh 1:9-12 "Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans."
Trúmál og siðferði | Breytt 22.11.2007 kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)