Pétur og heimildin (minnir á Önnu og útlitið)

Heimildarmaður Péturs Gunnarssonar er farinn að þynnast ansi mikið. Hafði semsagt sagt á bar að Geir og Steingrímur J. hefðu hist á fundi. Nú er fundurinn ekki lengur leynifundur, heldur e-r fundur og óvíst hverjir aðrir hafa verið staddir á fundinum eða hvort Geir og Steingrímur voru bara tveir. Heimildarmaðurinn tjáði sig í hópi blaðamanna, en ekki undir fjögur augu við Pétur eins og skilja mátti í upphafi. Heimildarmaðurinn taldi að stjórnarsamstarf hefði borist í tal. Ég held nú það, ég segi nú ekki meir. En mér er spurn: hversu mikið drukknir voru Pétur og heimildarmaðurinn? Mér er líka spurn: Var Pétur nokkuð staddur á sama bar og meintur heimildarmaður? Og: Hver tekur mark á drukknum manni? Ég vil minna á, að Pétur fullyrti upphaflega að Geir H. Haarde og Steingrímur J. hefðu hist á leynifundi útí bæ og hefðu farið fram stjórnarmyndunarviðræður á fundinum. Hafði Pétur þetta eftir traustum heimildarmanni sínum (væntanlega einkamoldvarpa Péturs innan Vg). Hversu traust eru nú svona vinnubrögð og hver er tilgangurinn?

Spilasalir hér, en ekki þar.

Ég bý hérna rétt ofan við Hlemm og er ekki í Sjálfstæðisflokknum og Villi Góði er ekki nágranni minn, þó svo hann eigi rætur að rekja hér í hverfinu. Foreldrar hans, ásamt fjölskyldu, þar með Villi litli, bjuggu í húsinu númer 9 við Einholt. Nú berast þær fréttir að spilavítið, sem nágrannar Villa og vinir hans í Flokknum ráku af höndum sér í Mjóddinni í Breiðholtinu, verði flutt niður á hornið á Rauðarárstíg og Laugavegi. Þar er fyrir svona spilavíti, sem fláð hefur peninga af spilafíklum í nokkur ár. Nú á sem sagt að bæta um betur, og stækka spilavítið sem nemur þessum ,sem flæmdur var úr Mjóddinni. Okkur íbúum svæðisins er ekki skemmt. Við viljum nefnilega, eins og íbúar Breiðholtsins, vera laus við ósómann. En í stað þess að flæma spilavítið burt fyrir okkur, ætlar Villi Góði, að breyta Hlemmi og nágrenni í eins konar mini-Vegas. Svona er lífið fyrir ofan Hlemm. Enda er ég, eins og ég segi, ekki í Flokknum og Villi Góði er ekki nágranni minn!

Pétur Gróuson á Leiti og Agnes Braga...

...hafa lengi talist meðal virtari blaðamanna og sjálfskipaðra álitsgjafa á Íslandi. Þau hafa nú bæði tekið að sér að hanna atburðarrásir sem aðeins eiga sér  stað í þeirra eigin höfði. Agnes tók "viðtal" við Jóhönnu Sig.. Sá galli er á viðtalinu að Jóhanna tók ekki þátt í því, það átti sér aðeins stað í höfðinu á Agnesi Braga. En Agnes gerir betur en þetta. Hún telur sig hafa betri heimildir um það sem á sér stað í þingflokki Samfylkingarinnar og á fundum Þingflokksins, en Össsur Skarphéðinsson, sem síðast þegar ég vissi var formaður þingflokksins. Geri aðrar blekbullur betur! Pétur er ekki síðri hönnuður á tilbúnum merkisviðburðum en Agnes. Hann hefur eftir heimildamanni sínum, að Geir H. Haarde og Steingrímur J. sitji leynifund og gerir því skóna að verið sé að semja um næstu ríkisstjórn. Enginn nema Pétur kannast við meintan leynifund, þannig að hann virðist hafa átt sér stað í höfðina á Pétri. Ekki veit ég hvort þessir blaðamenn og álitsgjafar eru svo veruleikafirrt, að þau álíti að það gildi einu hvort eitthvað hafi raunverulega gerst eða hafi aðeins átt sér stað í höfðinu á þeim í þeirra villtustu draumum um frábæra blaðamennsku og pólitíska greiningu. Okkur hin varðar það á hinn bóginn miklu, að blaðamenn haldi sig við veruleikann og raunverulega atburði. "Upplýsingar" um eitthvað annað eru okkur ekki til gagns. Hvað varðar  svokallaða heimildamenn, virðist það vera þannig að sumir blaðamenn skjóti sér á bak við þá til að firra sig ábyrgð á uppspuna sínum og hæpnum fullyrðingum. Svona eitthvað svipað og "ólyginn sagði mér" hjá skemmtilegum sögumönnum. Nema hvað Agnes og Pétur skemmta aðallega skrattanum, en skemmtilegir sögumenn áheyrendum sínum eða lesendum.

Bloggfærslur 27. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband