Í dag, og undanfarna daga, hafa menn verið iðnir að tjá sig um orðróm. Sá orðrómur gengur útá að verið sé að afskrifa skuldir ákveðins fyrirtækis. Miklar tilfinningar blandast inní þessa umræðu alla. Þar sem þetta er fyrirtæki svokallaðra Bónusfeðga, og að Jón Ásgeir er einn af útrásar"bófunum", þá fer umræðan svolítið í þennan farveg. Ýmsir hafa hneykslast á að ekki sé gengið að öðrum eignum manna. Og jafnvel talið að þeir eigi ekki að koma að stjórn fyrirtækisins.
Það er tvennt sem ekki hefur verið minnst á. Þegar verið er að greiða úr rekstrar- og skuldavanda fyrirtækja er það tvennt og aðeins þetta tvennt, sem hafa þarf að leiðarljósi. Það eru lögin og viðskiptalegir hagsmunir. Hverjir eru eigendur fyrirtækjanna er málinu óviðkomandi. Ef lög heimila ekki, að gengið sé að öðrum fyrirtækjum eða eignum manna vegna rekstrarvandræða í viðkomandi fyrirtæki, þá er það væntanlega ekki gert. Þetta eru ekki tilfinningamál!
Samkeppni. Hefur enginn velt því fyrir sér hversvegna Bónusfeðgar hafa náð svo miklum árangri, og mikill markaðsaðild? Halda menn að það sé aðeins með bolabrögðum? Hefur þeim bara ekki gengið betur að laða viðskiptavini að verslunum sínum en samkeppnisaðilunum? Er það ekki það sem hin svokallaða frjálsa samkeppni, hinn frjálsi markaður, gengur útá? Er þá nokkuð að?
Menn eru að sönnu ekki sammálu um hve mikil markaðshlutdeild umræddra fyrirtækja er. Samkeppnistofnun, skilst mér, fann út að hún væri í kringum 50%. Eigendur hafa haldið þessari tölu fram. Þeir sem, af einhverjum óútskýrðum ástæðum, hafa óbeit á Bónusfeðgum, og öllum þeirra fyrirtækjum og rekstri, halda fram miklu hærri tölu. Mér er tjáð að hér sé ástandið svipað og í borgum með svipaðan íbúafjölda og býr á Íslandi.
Mér hefur fundist vera svolítið falskur tónn í gagnrýni margra í umræðunni um aðgerðir stjórnvalda og vinnubrögð banka og annarra stofnana í endurreisn samfélagsins. Þannig hljóma raddir forystu- og talsmanna þess stjórnmálaflokks, sem ber mesta ábyrgð á ástandinu bæði með gerðum og aðgerðarleysi, bæði falskar og hjáróma. Sama gildir um stuðningsmenn flokksins. Þessir sömu hafa ekki haft svo stór orð um vini FLokksins í Landsbankanum. Ekki hefur heyrst hjá þeim að ganga eigi að t.d. Actavis, og hirða það af eigendum þess vegna Icesave-glæfranna.
Að lokum vil ég taka fram, að ég er ekki neinn sérstakur velunnari Bónusfeðga, frekar en annarra kapítalista. En mikið helvíti held ég, að oft hefði verið leiðinlegt við matarborðið hjá mér og fleirum, ef ekki væri fyrir Bónus. Verðlag var ekki svo glæsilegt hjá þeim, sem réðu hér öllu í matvöruverslun áður en Bónus kom til.
![]() |
Njóta eigendur Haga trausts? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2009 | 19:57
Er þetta niðurstaðan af þessari svokölluðu jafnréttisbaráttu?
Í dag fékk ég eftirfarandi bréf. það vekur mann til umhugsunar. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir feðrum í lífi barna í Foreldrafélagi Háteigsskóla, eða jafnvel á skrifstofu skólans... Og allra síst einstæðum feðrum! Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég verð var við það hugarfar, að ekki sé gert ráð fyrir að karlar séu forráðamenn barna sinna. Við höfum greinilega alveg gleymst í allri þessari jafnréttisbaráttu
Ágætu foreldrar og forráðamenn barna í Háteigsskóla
Foreldrafélag Háteigsskóla vill með bréfi þessu óska eftir stuðningi ykkar. Síðustu ár hafa foreldrar stutt dyggilega við foreldrafélag skólans. Foreldrafélagið heldur m.a. öskudagshátíð, vorhátíð og stendur fyrir námskeiðum. Undanfarin ár hefur skólinn boðið foreldrum barna við skólann í jólamat í desember en vegna niðurskurðar þarf skólinn á okkar stuðning að halda til þess að hefðin haldist. Samkvæmt lögum er skylda að hafa foreldrafélag í skólanum og gott samstarf heimila og skóla er afar mikilvægt.
Félagsgjald fyrir veturinn 2009-2010 er 1.500,- kr.
Nú eru greiðsluseðlar að birtast í heimabönkum mæðra. (Leturbreyting mín).
Aðeins er óskað eftir einu framlagi frá hverju heimili
Þeir sem eru ekki með heimabanka geta greitt inná reikning 130-26-6610 kt.661094-2229 (Foreldrafélag Háteigsskóla)
Við þökkum stuðninginn, barnið þitt mun njóta framlagsins!
Foreldrafélag Háteigsskóla