4.2.2009 | 21:46
Músasaga Kristins H. og stærilæti hans.
Stærilæti Íslendingsins, og Kristins H. Gunnarssonar í umræðum á Alþingi!
Fíll og mús voru á ferðalagi. Á ferð sinni komu þau að brú sem ganga þurfti yfir. Og þau gengu útá brúnna og brúin tók að sveiflast. Og fíllinn sagði: Það er nú meira, hvað brúin sveiflast! Og músin svaraði: Við erum líka tvö!
4.2.2009 | 21:32
Álverið heim á Bakka. Hin fánýta umræða!
Álver heim á Bakka. Það virðist vera hinn stóri draumur margra. Nú er ástandið þannig að verð á áli stendur ekki undir fjárfestingu þjóðarinnar í Álverinu á Reyðarfirði. Það vantar ca. 150 $ uppá per framleitt tonn! Hver borgar það? Það er sölutregða og lækkandi verð á áli!
Alþjóðlegar álsamsteypur draga saman seglin. Sú stærsta, Rio Tinto, á í miklum erfiðleikum, gott ef samsteypan rambar ekki á barmi gjaldþrots! Hin smærri í þessu bransa eiga líka í miklu basli.
Lánsfjármarkaðir eru frosnir. Lánsfé fæst ekki til nýrra stórframkvæmda í áhætturekstri sem auk þess stendur höllum fæti.
Sá aðili, sem ætlaði/ætlar að byggja álverið á Bakka, hefur lýst því yfir að endanleg ákvörðun um verkið sé ekki á dagskrá næstu 12 til 18 mánuði.
Og nú hnakkrífast sumir um hvort eigi að reisa álver. Þeir sem segja nei eru skammaðir fyrir að standa gegn sjálfsögðum framförum. Jafnvel þeir, sem vilja láta náttúruna, og komandi kynslóðir, njóta vafans eru álitnir ullarsokkar og afturhöld.
En miðað við það, sem að ofan er skrifað um umhverfi umrædds máls, má undrum sæta, að nokkur skuli eyða tíma sínum og annarra í að minnast á Álverið á Bakka
Meira, hvað þúfan er merkileg í augum þess sem á hana mígur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.2.2009 | 21:09
Við borgum ekki...! Við ætlum að veiða hval!
Það er aungvu líkara en að ýmsir stjórnmálamenn, og ekki stjórnmálamenn líka, séu harðákveðnir að segja umheiminum stríð á hendur. Í upphafi hruns íslensks samfélags lýsti Davíð Oddsson, hinn raunverulegi leiðtogi dé-listans, því yfir að við myndum ekki standa við skuldbindingar okkar: Við borgum ekki...
Einar K. Guðfinnsson notaði tækifærið í síðustu viku ráðherratíðar sinnar til að segja umheiminum, að við Íslendingar ætluðum að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni í stórum stíl. Þetta gerir Einar á þeim tíma í sögu þjóðarinnar að við eigum allt okkar undir velvilja umheimsins. Einar veit ósköp vel að hvalveiðar erum umdeildar innanlands, sem utan. Fjöldi ríkisstjórna er beinlínis alfarið á móti hvalveiðum. Fjöldi frjálsra, þrælskipulagðra félagasamtaka er tilbúin að hefja harðan áróður gegn þeim sem veiða hval og berjast jafnvel fyrir því að fólk kaupi ekki vörur frá ríkjum sem stunda hvalveiðar. Sölutregða og verðfall á sjávarfangi á mörkuðum er staðreynd sem liggur fyrir. Vill Einar K. auka á tregðuna og lækka verðið enn meir? Vill Einar K. kalla jafnvel yfir okkur viðskiptabann? Vill hann auka atvinnuleysið í landinu enn meir? Aðeins til að ca 200 manns geti veitt og unnið hvalaafurðir, sem er alveg óvíst að hægt sé að selja nokkur staðar eða nokkur tíma á næstunni. Sjómenn í Noregi eru farnir að draga úr fiskveiðum vegna sölutregðu á mörkuðum. Allar frystigeymslur eru fullar. Það er líklegt að þetta bíði okkar líka. Telja þeir sem vilja hefja hvalveiðar undir þessum kringumstæðum það heppilegt?
Sjálfur er ég hlynntur hvalveiðum. Það er vegna þess að mér finnst gott að éta hvalket. Mér finnst það samt ekki svo gott að ég vilji fórna heildarhagsmunum þjóðarinnar, mínum hagsmunum, til að ég geti étið hval! Hvalur, einkum hrefna étur fisk á fiskimiðunum, það er ein röksemd fyrir hvalveiðum. En kringumstæðurnar eru bara þannig að sú röksemd er ekki nógu sterk.
Getur verið að Einar K. hafi tekið stundarhagsmuni sjálfstæðisflokksins fram yfir hagsmuni þjóðarinnar? Hann hafi "aðeins" ætlað að skapa sundrungu í komandi stjórn og skora prik hjá ákveðnum hóp Íslendinga?
Það eru vissulega til menn, sem eru svo uppteknir af þúfunni sinni sem þeir míga á, að umheimurinn verður lítill og varla þess virði að vera veitt athygli. Eru þeir, sem ekki vilja borga/ og vilja ekki standa við skuldbindingar þjóðarinnar, og þeir sem vilja endilega veiða hval, þannig menn? Að þeirra þúfa skipti þá meira máli en þjóðin, og að þúfan skipti þá svo miklu máli, að umheimurinn sé lítilvægari? Getur verið að þeirra eigin persóna og þeirra eigin flokkur, þeirra eigin þúfa sé þeim mikilvægari en þjóðin og hagsmunir hennar? Og umheimurinn sé bara lítilvægur og skipti ekki mál? Þeirra eigin þúfa sé þeim allt?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)