Ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þskj. 219  —  177. mál.   25.11.2008  Flutningsmaður Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í rikisstjórn Geirs. H. Haarde.  Ýmsar ræður má finna á vef Alþingis, m.a. ræðu Bjarna Benediktssonar, núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.  Þá var hann þeirrar skoðunar að ríkið bæri ábyrgð á innistæðutryggingasjóði. 



Tillaga til þingsályktunar

um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum
vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka
á Evrópska efnahagssvæðinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.
1.    Lagaleg afstaða.
    Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 kom í ljós að umtalsverðar fjárhæðir voru á innlánsreikningum í útibúum íslenskra banka í Evrópu. Þessar fjárhæðir voru að stærstum hluta til á innlánsreikningum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave- reikningum. Þar sem starfsemi bankans í viðkomandi löndum var rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga gilda lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, um þessa starfsemi en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda sjóðsins, og þar með talin ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu efni er vísað til reglugerðar nr. 120/2000 begin_of_the_skype_highlighting              120/2000      end_of_the_skype_highlighting um sama efni. Á þessari forsendu sneru stjórnvöld í viðkomandi ríkjum Evrópusambandsins sér að íslenskum stjórnvöldum í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni felast.
    Íslensk stjórnvöld voru ekki tilbúin til að fallast á að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Hafa þau haldið því skýrt til haga í öllum sínum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja að þau telji að vafi leiki á um ábyrgð ríkja á tryggingarsjóðnum, ekki síst undir kringumstæðum þar sem fjármálakerfi aðildarríkis hrynur nánast að fullu eins og reyndin er hér á landi. Þessari lagatúlkun hefur verið hafnað af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli svo og af Evrópusambandinu.
    Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur verið lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól. Þessu hafa aðildarríki Evrópusambandsins alfarið hafnað. Afstaða þeirra byggist ekki síst á því að þau telja það mjög varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kunni að leika á um gildissvið þess innlánstryggingakerfis sem liggur til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu, þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar sé forsenda þess að innstæðueigendur treysti bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.

2.    Pólitísk staða.
    Við upphaf þeirrar deilu sem hér um ræðir sneri hún einvörðungu að Bretum og Hollendingum og voru því viðræður teknar upp við þau ríki sérstaklega. Á þeim tíma stóðu líkur þegar til þess að Ísland mundi þurfa að reiða sig á lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem og tvíhliða aðstoð erlendra ríkja til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl á nýjan leik. Eftir að gengið hafði verið frá viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samvinnu við sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skipulega unnið að því í gegnum tengslanet utanríkisþjónustunnar að kynna málstað og málaleitan Íslands fyrir aðildarríkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Varð framan af ekki vart neins annars en stuðnings. Það snerist hins vegar og verulegar tafir urðu á fyrirtöku viljayfirlýsingar Íslands í framkvæmdastjórn sjóðsins.
    Þessi staða kom enn skýrar í ljós þegar Frakkland, sem formennskuríki í Evrópusambandinu, ákvað að beita sér fyrir viðræðum milli deiluaðila með pólitíska lausn að markmiði. Þá varð ljóst að ríki Evrópusambandsins töluðu einum rómi í málinu og lögðu kapp á að ábyrgð Íslands skýrðist sem allra fyrst. Sama átti við um starfshóp norrænu ríkjanna um lánafyrirgreiðslu við Ísland sem starfaði í framhaldi af fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Þannig varð ljóst að lausn þessa máls væri forsenda þess að hægt væri að fjármagna að fullu þá efnahagsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til afgreiðslu og að Ísland stæði einangrað ef pólitískri samningaleið væri hafnað.

3.    Niðurstaða íslenskra stjórnvalda.
    Með allt framangreint í huga er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni. Gert er ráð fyrir því að þau ríki sem hlut eiga að máli muni aðstoða sjóðinn við að standa undir þessu verkefni og það verði í formi lánveitinga viðkomandi ríkja til sjóðsins með ábyrgð íslenska ríkisins. Þær viðræður sem fram undan eru munu skera úr um nánari útfærslu þessara lánveitinga, auk þess sem hin endanlega niðurstaða mun ráðast af því að hve miklu leyti andvirði eigna viðkomandi banka mun renna til sjóðsins við uppgjör á búum þeirra.
    Endanlegar niðurstöður framangreindra samninga munu verða lagðar fyrir Alþingi og aflað viðeigandi fjárheimilda eftir því sem aðstæður krefjast.

Fylgiskjal.

UMSAMIN VIÐMIÐ


    1.      Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
    2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
    3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

http://www.althingi.is/altext/136/s/0219.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband