14.3.2007 | 10:53
Sannleikurinn ?
Það rifjaðist upp fyrir mér við lestur blaðanna í morgun að meðalmaðurinn lýgur að sjálfum sér að meðaltali ca. 150-200 sinnum á dag. Hvers vegna þetta rifjaðist upp læt ég ósagt!
Heimili og skóli-landssamtök foreldra? Einhvern veginn hefur mér alltaf fundist þessi samtök vanmeta bæði börnin og foreldrana; sérstaklega börnin. Það sem ég hef kynnst þessum samtökum, sem foreldri, minnir óþægilega á frásagnir frá Austur-Þýskalandi í denn. Kórónan er plagg sem lá frammi á foreldrakynningu 1. bekkjar (5-6 ára barna) haustið 2005. Þar áttu foreldrar að skrifa undir samning við börnin sín um að framfylgja reglum um útivistartíma barna (sem lögreglan setur). Samningur þessi skyldi síðan hanga uppi í skólastofu barnanna og börnin áttu að fylgjast með því hvort pabbi og mamma brytu lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Sæll og blessaður, Ullrich, wo bist du, langt síðan þú hefur sést! Grínlaust þá birtist þetta félag mér, sem foreldri, í illagrunduð plöggum og yfirlýsingum þar sem talað er niður til fólks (barna og fullorðinna) í tilskipanastíl! Landssamtök foreldra? Eru einhverjir í þessu félagi sem skráðir félagar og af sjálfsdáðum? Eða er þetta eitthvert pelskerlingafélag, svona eins og vetrarhjálpin?
Vestfirðir. Vestfirðingar fá 10 milljónir á ári úr ríkissjóði til að laga hjá sér atvinnulífið, sem er að veslast upp vegna athafna og þráhyggju stjórnmálamanna. Allt hefur drukknað í ofuráherslum á stóriðju í þessu volaða landi. Aðstoð við stofnun og uppbyggingu smáfyrirtækja, sem víðast hvar er vaxtarbroddurinn í atvinnulífi þjóða, er svo víðsfjarri í allri vitleysunni hér. Stóriðja og ótaldir milljarðar í styrki til landbúnaðar (já, vekjum geirfuglinn upp frá dauðum) er það sem steintröllunum dettur í hug. Nú eru þau búin að stofna nefnd um Vestfirði, því heimamönnum er ekki treyst til að vita hvað þeir vilja og þurfa. Hvað verður það næst? Vinafélag Vestfjarða eða Styrktarfélag Atvinnulamaðra á Vestfjörðum?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.