27.3.2007 | 08:58
Pétur Gróuson á Leiti og Agnes Braga...
...hafa lengi talist meðal virtari blaðamanna og sjálfskipaðra álitsgjafa á Íslandi. Þau hafa nú bæði tekið að sér að hanna atburðarrásir sem aðeins eiga sér stað í þeirra eigin höfði. Agnes tók "viðtal" við Jóhönnu Sig.. Sá galli er á viðtalinu að Jóhanna tók ekki þátt í því, það átti sér aðeins stað í höfðinu á Agnesi Braga. En Agnes gerir betur en þetta. Hún telur sig hafa betri heimildir um það sem á sér stað í þingflokki Samfylkingarinnar og á fundum Þingflokksins, en Össsur Skarphéðinsson, sem síðast þegar ég vissi var formaður þingflokksins. Geri aðrar blekbullur betur! Pétur er ekki síðri hönnuður á tilbúnum merkisviðburðum en Agnes. Hann hefur eftir heimildamanni sínum, að Geir H. Haarde og Steingrímur J. sitji leynifund og gerir því skóna að verið sé að semja um næstu ríkisstjórn. Enginn nema Pétur kannast við meintan leynifund, þannig að hann virðist hafa átt sér stað í höfðina á Pétri. Ekki veit ég hvort þessir blaðamenn og álitsgjafar eru svo veruleikafirrt, að þau álíti að það gildi einu hvort eitthvað hafi raunverulega gerst eða hafi aðeins átt sér stað í höfðinu á þeim í þeirra villtustu draumum um frábæra blaðamennsku og pólitíska greiningu. Okkur hin varðar það á hinn bóginn miklu, að blaðamenn haldi sig við veruleikann og raunverulega atburði. "Upplýsingar" um eitthvað annað eru okkur ekki til gagns. Hvað varðar svokallaða heimildamenn, virðist það vera þannig að sumir blaðamenn skjóti sér á bak við þá til að firra sig ábyrgð á uppspuna sínum og hæpnum fullyrðingum. Svona eitthvað svipað og "ólyginn sagði mér" hjá skemmtilegum sögumönnum. Nema hvað Agnes og Pétur skemmta aðallega skrattanum, en skemmtilegir sögumenn áheyrendum sínum eða lesendum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.