29.3.2007 | 18:05
Álver, kreppusótt og voðaskot.
Stóriðjusinnar eru illa haldnir af kreppusótt! Þeir halda því stíft fram og tönglast á því í síbylju, að hér skelli á kreppa, verði ekki af stækkuninni í Straumsvík og öðrum stóriðjuframkvæmdum. Helsta baráttuaðferð þeirra er sem sagt hræðsluáróður og svo að stoppsinnum sé illa við launþega. Ja, hérna hér. Athyglisvert er að í áróðri sínum skírskota þeir fyrst og fremst til tilfinninganna. Þeir beita í raun engum rökum öðrum en tilfinningalegum. Hagvaxtarspár og önnur efnahagsleg rök, ástand umhverfis, framtíðarhorfur í þróun atvinnulífsins og möguleikar í nýjum tækifærum. Allt þetta er víðsfjarri í huga þeirra og málflutning. Þær skorður sem við myndum setja okkur í framtíðinni með áframhaldandi stóriðjuframkvæmdum eru líka fjarri huga þeirra og málflutningi. Greiningardeild Glitnis spáir 2,6-3,5% hagvexti næstu 3 árin án frekari stóriðjuframkvæmda. Spáin segir líka, að áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir sé ávísun á áframhaldandi þenslu og auki líkurnar á harðri lendingu í hagkerfinu. Þetta er það sem Seðlabankinn segir líka (sumir virðast ekki átta sig á því að Davíð er bara að kynna afrakstur vinnu fjölda sérfræðinga í efnahagsmálum, heldur hnýta í kallinn). Verði framhald á stóriðjuframkvæmdum mun það leiða til áframhaldandi hárrar verðbólgu (5-8%), hárra vaxta, áframhaldandi mikils viðskiptahalla og gengissveiflna. Hvað þýðir það? Það þýðir: lakari lífskjör venjulegra launþega og lífeyrisþega, þyngri greiðslubyrði af öllu vísitölutryggðum lánum s.s. húsnæðislánum og sú greiðslubyrði lækkar ekki aftur, kaupgeta mun minnka (eitt einkenni verðbólgu), erfiðari rekstrarskilyrði í iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Fyrirtækjum eins og Marel, Össuri, Actavis, hugbúnaðarfyrirtækjum og slíkum mun blæða og færri tækifæri á sviði þekkingariðnaðar munu verða nýtt. Fjármálageirinn mun hinsvegar blómstra sem aldrei fyrr, sem sagt græðir áfram á vitleysunni. Viðskipahallann þarf að vinna upp, sem þýðir lakari lífskjör. Mengunarkvótinn verður fullnýttur og þar með skerðast möguleikar okkar til framtíðar. Hagkvæmustu virkjunarkostirnir verða nýttir til stóriðju og skerðir það með möguleika okkar. Má þar nefna stórrekstur á sviði upplýsingaiðnaðar, t.d. flutningur Google og slíkra fyrirtækja til landsins og uppbygging slíkra fyrirtækja innanlands. Slík fyrirtæki eru að leita sér að hagkvæmri orku ekki síður en málmiðaður. Og þau sækja í umhverfisvæna orku vegna ímyndar sinnar. Vetnisframleiðslu, framleiðslu rafmagns til samgangna o.fl. slíkt má nefna. Áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir reisa okkur skorður vegna umhverfismála og í orkuframleiðslu fyrir annað. Álverið í Straumsvík er ekkert að fara, þó ekki verði stækkað. Raforkusamningar eru til 6 ára enn og Alcan skilur ekki við sig fjárfestingar sem skila hagnaði. Stöðugt mun þrengja að áliðnaðinum í framtíðinni vegna hækkunar á orkuverði um allan heim og vegna umhverfisverndar. 2012 verða settir nýjir mengunarkvótar og þrengri reglur í umhverfismálum í heiminum eru fyrirsjáanlegar. Með tilliti til efnahagsspáa greiningadeilda bankanna og Seðlabankans og horfanna í umhverfismálum heimsins má segja að áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir myndu teljast til voðaskota í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti. Það er mín skoðun!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.