25.10.2007 | 22:56
Þjóðkirkjan og samkynhneigðir!
..."þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs." MT. 22:29
Það er merkilegt, hvað samkynhneigðir eru miklir aðdáendur þjóðkirkjunnar. Þeir sækja það allavega fast, að fá blessun hennar. En það er sárt að vera afneitað. Einhver sagði að samkynhneigðir og þjóðkirkjan ættu svona álíka vel saman og svertingjar og Ku Klux Klan! Ekki veit ég það nú. En hitt veit ég, að viðhorf margra meðal okkar kristinna manna til samkynhneigðra minnir óþægilega á viðhorf Ku Klux Klan til svertingja. Ég man ekki eftir því, að Jesú hafi haft svona viðhorf til nokkurs manns eða hóps manna. Ég man hinsvegar eftir að hafa lesið um, að Jesú hafi umgengist eða haft samneyti ýmisskonar fólk, sem Gyðingar vildu ekkert með hafa. Heilu þjóðarbrotinn voru þar á meðal, sjúkir voru þar á meðal, tollheimtumenn, holdsveikir, betlarar o.fl. o.fl. Ég man líka að hafa einhvern tíma lesið, að Jesú gaf lítið fyrir Farísea, Öldunga og annað "stórmenni". Mig minnir, að hann hafi sérstaklega verið lítið hrifinn af þeim sem í sífellu vitnuðu í Lögmálið; Lögmálsdýrkendur. Æðstu prestarnir og hörðingjarnir, Saddúkearnir, voru meðal þeirra sem Jesú gaf lítið fyrir. Þessir höfðu hin rituðu lög í miklum hávegum. Móse var þeirra maður. Páll piparsveinn kom úr hópi Saddúkea, og var áfram Saddúkei þó hann játaðist undir trúnna á Jesú Krist. Þetta segja mér fróðir menn og konur. En hvað um það. Ég er svona að velta því fyrir mér, hvort það hafi verið til lítils fyrir okkur mennina, að Guð sendi son sinn til að vitja arfleifðar sinnar og færa okkur nýjan sáttmála. Fræðimenn og æðstuprestar eru hér enn. Og enn er Móse þeirra maður, og Páll.
"Þegar Farísear heyrðu, að hann hafði gert Saddúkea orðlausa, komu þeir saman. Og einn þeirra, sem var lögvitringur, vildi freista hans og spurði: "Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?" Hann svaraði honum: "Elska skaltu Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Annað er þessu líkt: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir." MT 22:34-40
Nú er ég svona að velta því fyrir mér, hvort hinir bóklærðu, fræðimenn og Saddúkear nútímans, haldi að þeir geti eitthvað bætt um betur. Hafa þeir kannski reist sér skurðgoð, sem þeir vilja tilbiðja, í stað þess að elska Guð og náunga sinn. Er þeim kærleikurinn eitthvað óþægilegur eða fer þeim betur að segja: "Móse segir...."
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.