26.1.2009 | 15:16
VinstriGræn setja ofaní við BB! Meiðyrði, rangar sakir og einelti dómsmálaráðherra!
Þingmenn VG tala um einelti dómsmálaráðherra
Sakar þingmenn um að hafa veist að lögreglu
26.1.2009 15:03 Fréttaskýringar
Atli Gíslason segist ekki sitja undir röngum sakargiftum frá dómsmálaráðherra. Refsivert sé að bera fólk sökum eins og Björn Bjarnason geri. Álfheiður Ingadóttir sakar Björn um einelti.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, færir langt mál um mótmæli og pólitík á heimasíðu sína bjorn.is um helgina. þar segir hann meðal annars:
"Þingmennirnir Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason hafa beinlínis veist að lögreglunni vegna aðgerða hennar."
Ótrúlegar ásakanir sem varða við lög
"Þetta eru ótrúlegar ásakanir dómsmálaráðherra gagnvart mér sem einstaklingi og alþingismanni og fela í sér rangar sakargiftir sem refsiverð eru að almennum hegningarlögum, 6 mgr, " segir Atli.
Þingmaðurinn segist hafa fylgst grannt með mótmælum við alþingishúsið síðastliðinni þriðjudag, fyrst innan úr þinghúsinu meðan þingfundur stóð og síðar utan húss síðla dags og um kvöldið.
"Ég tók marga tali, bæði lögreglumenn og mótmælendur. Um kl. hálf tíu um kvöldið gerði ég mér ljóst að í mikið óefni stefndi. Gerði ég mér því ferð á skrifstofu mína að Vonarstræti 12 og ritaði allsherjarnefnd bréf, lýsti þungum áhyggjum mínum og óskaði eftir því að nefndin kallaði á sinn fund talsmenn mótmælenda og lögreglu til að koma á samræðu milli þessara aðila og þingsins í þeirri einlægu von að koma í veg fyrir ofbeldi, ekki síst gegn lögreglumönnum."
"Ofbeldi er eitur í mínum beinum," segir Atli.
Smugan sagði frá þessari beiðni Atla, sem ekki hefur verið orðið við ennþá. En um ofbeldi næturinnar segir þingmaðurinn þetta:
"Því miður brast það á eftir miðnætti og endurtók sig daginn eftir. Ofbeldi er eitur í mínum beinum og þeirri skoðun lýsti ég meðal annars afdráttarlaust í morgunútvarpi Bylgjunnar fimmtudagsmorguninn 21. janúar og að þeir sem því hefðu beitt gagnvart lögreglu ættu eðlilega að sæta ábyrgð," segir Atli. En í þeim þætti lét Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins að því liggja að Vinstri græn stæðu að baki mótmælum þar sem ofbeldi hefði verið beitt.
"Það vita allir sem vilja vita að lögreglan hefur staðið sig afar vel í mótmælunum, sýnt aðdáunarverða þolinmæði og umburðarlyndi sem beinlínis hefur komið í veg fyrir mun meira ofbeldi en raun ber vitni."
Býst ekki við að Björn biðjist afsökunar
Atli reiknar ekki með því að Björn Bjarnason biðjist afsökunar eða taki ummæli sín aftur, þar sem hann skilji ekki það sem er að gerast, eða almenning í landinu.
"Í þessu ljósi eru árásir dómsmálaráðherra á mig, þessar óskammfeilnu röngu sakargiftir, honum fullkomlega ósæmandi og sýna svart á hvítu að hann lifir ekki í sama heimi og almenningur í landinu. Ég ætla Birni ekki þann manndóm að biðjast afsökunar á lygum sínum, en þær hitt hann sjálfan fyrir, segir Atli Gíslason, lögmaður og þingmaður vinstri grænna, sem býst ekki við því að nokkur heilvita maður taki tilhæfulausar ásakanir dómsmálaráðherra alvarlega. Sjálfur hafi hann rætt við lögregluna, á bæði á óformlegum fundi með talsmönnum Landssambands lögreglumanna og í samtali við Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjón. Í þessum samtölum hafi verið rætt um leiðir til samstarfs milli lögreglu og friðsamlegra mótmælenda, sem síðan komst á að frumkvæði mótmælenda sjálfra.
Dapurlegt að yfirmaður dómsmála stundi einelti
Álfheiður Ingadóttir segir dapurlegt að yfirmaður dómsmála í landinu skuli leggja þingmenn í einelti eins og hann geri með ítrekuðum og algjörlega rakalausum ásökunum. Ég hef ekki veist að neinum lgöreglumanni en því er hinsvegar ekki að leyna að lífvörður einhvers ráðherrans veittist að mér í þinghúsinu 20. janúar s.l. og ég svaraði fyrir mig, spurði hann m.a. að nafni og sagðist ekki hafa áhuga á því að hann hótaði mér eða segði mér hvernig ég ætti að sitja eða standa á mínum vinnustað. Ég gerði athugasemdir við framgöngu hans bæði við forsætisráðherra og forseta alþingis."
Ég hef aldrei séð ástæðu til að svara Birni Bjarnasyni fyrr. Mér finnst hann vera fullkomlega ómarktækur. Ásakanir hans í fréttum Ríkisúvarpsins voru t.a.m. þess eðlis að hann tók fram að hann hefði sjálfur ekki verið á vettvangi, heldur hefði einn og annar sagt honum eitt og annað. Því miður leitaði fréttastofan ekki til mín vegna þessara ásakana Björns, sem ég hefði gjarnan viljað svara þá."
Hann hefur verið með mig á perunnu alveg frá því ég var kosin á þing og það hefur sést á skrifum hans og orðum í þinginu að honum er ekki sjálfrátt þegar ég er annarsvegar. Þetta er einhver kaldastríðsskjálfti sem hann ræður ekki við. Síðustu daga hefur Björn Bjarnason hins vegar útvíkkað ásakanir sínar og talar um vinstri græn almennt sem stuðningsmenn ofbeldis. Því getur hvorki þingflokkurinn né ég sem einstaklingur setið undir. Þetta hefur síðan verið étið upp af jábræðrum Björns á netmiðlum og víðar og er með öllu óþolandi."
Ályktun þingflokks VG vegna ásakana Björns Bjarnasonar
Vegna órökstuddra ásakana af hálfu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í garð einstakra þingmanna VG vill þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs koma eftirfarandi á framfæri:
Þingflokkur Vinstri grænna fordæmir harðlega hvers kyns ofbeldi, sama hver í hlut á. Ofbeldi í garð lögreglunnar er aldrei og undir engum kringumstæðum réttlætanlegt.
Friðsamleg mótmæli og andóf eru mikilvægir hlekkir virkrar þátttöku í lýðræðisríki og það er ekki að undra að fólk rísi nú upp gegn því órétti og ranglæti sem hefur fengið að viðgangast í samfélaginu. Slík mótmæli beinast ekki gegn góðri löggæslu heldur gegn vanhæfum stjórnvöldum og þeim sem ábyrgðina bera.
Að mati þingflokks VG hefur lögreglan almennt sýnt aðdáunarverða þolinmæði og umburðarlyndi sem hefur komið í veg fyrir frekara ofbeldi. Fyrir það á lögreglan hrós skilið og sama gildir um mótmælendur sem af hugrekki slógu skjaldborg um lögreglumenn til að verja þá gegn árásum. Samtakamátturinn var þannig virkjaður til að útiloka frekara ofbeldi og slíkt vekur vonir um að okkur Íslendingum takist að vinna okkur út úr aðsteðjandi erfiðleikum með friðsamlegri samstöðu.
Tilraunir Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til að slá ryki í augu fólks með yfirlýsingum eins og þeirri að tilteknir þingmenn VG hafi beinlínis veist að lögreglunni" eru veruleikafirrt og eiga sér enga stoð í sannleikanum Það er ábyrgðarhluti að yfirmaður dómsmála í landinu skuli viðhafa slíkar dylgjur og blekkingar í pólitískum tilgangi.
Gríðarlegt álag er á hinni almennu löggæslu í landinu sem hefur mátt þola mikinn niðurskurð og erfiðar vinnuaðstæður á síðustu árum. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sendir þeim baráttukveðjur og minnir á að það er hlutverk okkar allra að vernda góða löggæslu á sama hátt og hún verndar okkur".
Skrifa athugasemd
*Nafn:
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:19 | Facebook
Athugasemdir
Já Auðun, þó ótrúlegt sé á Björn fjölmarga skoðanabræður í sínum flokki. Við skulum ekki vera neitt undrandi þó fylgi Sjálfstæðisflokksins sé ennþá yfir fimmtungi þrátt fyrir alla þá ógn sem hugmyndafræði hans hefur leitt yfir þjóðina. Mikill meirihluti gamalla flokksmanna lifir enn í þeirri blindu trú að rússneski kommúnisminn eigi núna sínar höfuðstöðvar á flokksskrifstofu VG og bíði færis á að koma hér á einræðisstjórn með blóðugri byltingu. Þetta er pólitík sem Hannes H. kennir nemendum sínum í H.Í.
Árni Gunnarsson, 26.1.2009 kl. 23:10
Mikið rétt! Stór hluti þjóðarinnar ófær um sjálfstæða skoðanamyndun og af gömlum vana og leti horfir þetta fólk til mávsins, sem sýkt hefur samfélagið af geðrænni samonellu. Byltingin? Mér sýnist allt stefna í, að byltingin komi einsog þjófur að nóttu (sbr. endurkoma frelsarans). Þjóðskipulaginu verði bylt þannig að fáir taki eftir fyrr en eftir á! Blóðug hvað? Það má ekki berja eina eða fimm löggur án þess að allt verði viitlaust!
Auðun Gíslason, 27.1.2009 kl. 13:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.