4.2.2009 | 21:32
Álverið heim á Bakka. Hin fánýta umræða!
Álver heim á Bakka. Það virðist vera hinn stóri draumur margra. Nú er ástandið þannig að verð á áli stendur ekki undir fjárfestingu þjóðarinnar í Álverinu á Reyðarfirði. Það vantar ca. 150 $ uppá per framleitt tonn! Hver borgar það? Það er sölutregða og lækkandi verð á áli!
Alþjóðlegar álsamsteypur draga saman seglin. Sú stærsta, Rio Tinto, á í miklum erfiðleikum, gott ef samsteypan rambar ekki á barmi gjaldþrots! Hin smærri í þessu bransa eiga líka í miklu basli.
Lánsfjármarkaðir eru frosnir. Lánsfé fæst ekki til nýrra stórframkvæmda í áhætturekstri sem auk þess stendur höllum fæti.
Sá aðili, sem ætlaði/ætlar að byggja álverið á Bakka, hefur lýst því yfir að endanleg ákvörðun um verkið sé ekki á dagskrá næstu 12 til 18 mánuði.
Og nú hnakkrífast sumir um hvort eigi að reisa álver. Þeir sem segja nei eru skammaðir fyrir að standa gegn sjálfsögðum framförum. Jafnvel þeir, sem vilja láta náttúruna, og komandi kynslóðir, njóta vafans eru álitnir ullarsokkar og afturhöld.
En miðað við það, sem að ofan er skrifað um umhverfi umrædds máls, má undrum sæta, að nokkur skuli eyða tíma sínum og annarra í að minnast á Álverið á Bakka
Meira, hvað þúfan er merkileg í augum þess sem á hana mígur!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er einmitt málið Auðun. Takk fyrir góðan pistil og bestu baráttukveðjur,
Hlynur Hallsson, 5.2.2009 kl. 12:26
Takk fyrir innlitið Hlynur! Baráttukveðjur!
Auðun Gíslason, 5.2.2009 kl. 12:35
Verður ekki þverfótað hér fyrir Bakka-bræðrum?!
Hlédís, 5.2.2009 kl. 13:59
Ég hef áður sagt það og endurtek það enn. Ég óska Húsvíkingum þessa fremst af öllu að þeir reisi ekki álver við bæjarfótinn á sínum fagra bæ. Hinsvegar væri ekki úr vegi að nýta orkuna sem rætt er um að selja á niðursettu verði í fyrirhugað Bakkaálver í t.d. netþjónabú. Það eru mörg ár síðan slík hugmynd kom uppá borðið og nú er lag. Slík bú eru stundum neðanjarðar, eina mengunin sem af þeim hlýst er freturinn úr starfsmönnum, þau eru mannfrek og þurfa vel menntað fólk sem þýða hálauna störf. Að troða fleiri álverkssmiðum niður á okkar fagra landi er fullkomin tímaskekkja.
Pálmi Gunnarsson, 5.2.2009 kl. 14:14
Öll þessi áhersla á ál hefur aðeins leitt til þess að aðrar hugmyndir um atvinnustarfsemi hafa verið látnar sitja á hakanum. Kísilflöguverksmiðja mætir tómlæti. Mun umhverfisvænni rekstur og er liður í framleiðslu á mengunarlausri orku, sólarorku. Já og netþjónabú. Stofnun meðalstórra og smá fyrirtækja hefur orðið útundan vegna þessarar sífellt áherslu á fjármálabrask og álverksmiðjur! Eru álverksmiðjur einhverskonar stöðutákn meðal sveitarstjórnarmanna? Takk fyrir innlitið!
Auðun Gíslason, 5.2.2009 kl. 15:40
Stundum er það eina ráðið að svelta kýrnar þegar eru farnar að fúlsa við heyinu. Þetta ráð notuðu íslensk stjórnvöld þegar þau gáfu góðvinum sínum einokun á fiskimiðunum og hétu fólkinu í sjávarbyggðunum í staðinn vel launuðum störfum í álbræðslum.
Hin pólitíska þversögn í þessu gjafakvótamáli er sú að sá eini stjórnmálaflokkur sem barist hefur fyrir náttúruvernd og bent á aðrar og betri atvinnulausnir en álbræðslur hefur nú bæði umhverfisráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti í sinni vörslu. En, fyrsta yfirlýsing Steingríms J. Sigfússonar í þessa veru var sú að hann aðspurður ætlaði ekki að "setja nýtingu fiskimiðanna í uppnám."
Ég skammast mín ekki hætis hót fyrir að viðurkenna að þessi orð Steingríms urðu mér sár vonbrigði og komu mér í dálítið uppnám sem ég hef ekki ennþá jafnað mig á til fulls.
Á íslenskum stjórnvöldum liggur dómur fyrir mannréttindabrot tengdum stjórnun fiskveiða. Fjölmargar ályktanir erlendra fjármálspekinga eru einróma á þann veg að samþjöppuð "eignaraðild" að þessari auðlind sé það eldsneyti sem íslenskir fjárglæframenn nýttu sér til að koma þjóðinni á vonarvöl og skipa henni á bekk með alþjóðlegum glæpahringum. "Varúð, Íslendingur nálgast!"
Fullhuginn Steingrímur J. Sigfússon hefur rautt spjald frá mér meðan hann er verndari þessa gerspillta forréttindakerfis.
Árni Gunnarsson, 5.2.2009 kl. 17:23
Það verður að fá meirihlutastjórn með nægan tíma til að afgreiða svona mikilvæg mál. Árni! Þref minnihlutastjórnar (sem þar að auki er studd af Framsókn) eyðir bara tíma frá brýnustu björgunarmálunum nú.
Hlédís, 5.2.2009 kl. 17:55
Já þetta er fánýt umræða um álver á Bakka - fre bara í hringi.
Margrét St Hafsteinsdóttir, 5.2.2009 kl. 18:14
Viðhorfin voru skýr Hlédís.
Já mikið væri það nú gáfulegt að gera einn samninginn í viðbót um sölu á vistvænni orku á niðurgreiddu verði. Kaupandi kominn í rekstrarþrengingar og orkuna á að nýta til framleiðslu á málmi sem lítil spurn er eftir og verð hríðfellur.
En Þingeyingar emja og heimta álver. Þeir spyrja: "En á hverju eigum við að lifa ef við fáum ekki álver?" Bakkabræður voru kannski ekki stálgreindir en líklega hefur þeim ekki verið alls varnað. Þeir reru til fiskjar og reyndu að bjarga sér án atbeina stjórnvalda. Þingeyingar eru í dag miklir eftirbátar Bakkabræðra; þeir nenna ekki að koma á Austurvöll með beyglaðar kastarholur og ryðguð hnífastál til að slá taktinn meðan þeir þruma: "Skilið okkur aftur heimildinni til lífsbjargar sem þið stáluð af okkur helvítin ykkar! Og látið okkur svo í friði fyrir ykkar andskotans álverum!"
Ég er eiginlega búinn að gleyma því hvernig það var að vera Íslendingur þegar menn voru ennþá menn.
Árni Gunnarsson, 5.2.2009 kl. 21:48
Rétt Árni! Þjóðnýtum þjóðareignina! Hlynur, nú er að hrista uppí Húsvíkingum! Þeir geta andskotinn ekki látið spurjast um sig , að vera minni menn en Bakkabræður!
Auðun Gíslason, 6.2.2009 kl. 02:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.