1.7.2009 | 04:09
Plan B?
Til hvers? Það er orðið nokkuð ljóst af framkomnum upplýsingum, að ekki er um annað að ræða en að greiða þetta Icesave klúður útrásarprinsa frjálshyggjunnar. Til hvers að vera með plan B? Trúið þið því að eitthvað betra gefist nú, jafnvel eitthvað enn betra en i samningsdrögunum á minnismiðanum hans Árna?
Ég las eftirfarandi á bekk við Austurvöll í dag, skrifað með svörtu: Hengjum okkur saman í sumar! Er það eitthvað plan B, fyrir þá sem halda að veruleikinn sé bíómynd? En ekki þessi hrollkaldi veruleiki sem við blasir í skýrum kröfum "vina" okkar í Nato og ESB: Borgið eða étið það sem úti frýs, ein í þeirri kreppu, sem er rétt aðeins hafin! Því ástandið á eftir að versna og svo á það bara eftir að versna enn meir! Viljum við þá standa ein eftir? Búið að draga til baka lánið frá AGS og loka á allar lánalínur og lánamöguleika! Þá sitjum við hér bensínlaus, sígarettulaus og ekkert kornfleks í morgunmat....
Ein lítil dæmisaga, stundum sögð sem brandari: Einu sinni voru maurar á ferð. Þeir rákust á fíl. Og þar sem maurarnir voru góðu vanir og höfðu unnið góða og mikla sigra fyrr á göngu sinni ákváðu þeir að leggja til atlögu við fílinn og leggja að velli. Og einsog þið vitið, börnin góð, þá eru fílar ógnarstórir og maurar að sama skapi smáir. Og sem þeir hafa lengi herjað á fílinn án árangurs, þá kemst loks einn maurinn uppá herðakamb fílsins. Og þá hrópuðu allir hinir maurarnir einum rómi: Kiddi kyrkt'ann, kyrkt'ann! Þú hefur hann alveg! Engum sögum fer af kyrktum fíl í skóginum. Að minnsta kost ekki þann daginn.
Allt þykir benda til þess, að samdrátturinn í heimsframleiðslunni muni halda áfram næstu misserin. Þó ekki sé víst að kreppan nú hegði sér nákvæmlega einsog sú, sem hófst 1929. Gegnum allt hrunið á 4. áratugnum trúðu menn því, að einmitt núna væri botninum náð. Nákvæmlega einsog í þessari sem nú herjar! Ættum við ekki frekar að reyna að verjast hræætunum sem munu herja á íslenskt samfélag í líki peningamanna, einsog þeirra sem nú eru að gera kaupsamning um HS Orku. Og reyna að koma í veg fyrir eitt allsherjar "Sell-Out" á fyrirtækjum og stofnunum landsins. Er þjóðin ekki búin að fá nóg af reynslu sinni af auðmönnum og peningamönnum?
Ekkert plan B" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.