4.8.2009 | 09:34
Lögbannið úr sögunni! Kaupþing heldur málinu ekki til streitu!
Maður getur spurt sig, hvort þetta hefði gerst, ef almenningur hefði ekki brugðist við af hörku. Ég mun flytja viðskipti mín annað þrátt fyrir þetta.
Fallið frá lögbanni gegn umfjöllun RÚV um lántakendur Kaupþings
Skilanefnd Kaupþings og bankastjóri Nýja Kaupþings banka hafa ákveðið að höfða ekki staðfestingarmál vegna umfjöllunar RÚV um trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini.
Ástæða lögbannsbeiðninnar gagnvart RÚV var að standa vörð um trúnaðarsamband við núverandi viðskiptavini bankans. Á listanum sem var birtur á vefsíðu og RÚV hugðist fjalla áfram um voru upplýsingar um stóran hluta núverandi viðskiptavina bankans, sem tengdist á engan hátt fyrri eigendum Kaupþings. Markmiðið með lögbannsbeiðninni var ekki að leyna upplýsingum um lánveitingar til eigenda Kaupþings eða tengdra aðila enda hafa þær upplýsingar legið fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu, sérstökum saksóknara og rannsóknarnefnd Alþingis í fleiri mánuði.
Með samþykkt sýslumannsins í Reykjavík á kröfunni var tekið undir sjónarmið skilanefndar Kaupþings og Nýja Kaupþings banka þess efnis að birting upplýsinganna bryti í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Þagnarskylda og trúnaður um málefni viðskiptavina er lögbundin og bönkum óheimilt að upplýsa um málefni viðskiptavina sinna.
Mismunandi sjónarmið varðandi þagnarskyldu um málefni viðskiptavina fjármálafyrirtækja hafa komið fram í kjölfar þessa, jafnvel að þagnarskylda skuli afnumin með öllu. Telji ráðamenn þjóðarinnar rétt að ákvæði laga um þagnarskyldu sé með öðrum hætti en nú er kveðið á um er brýnt að löggjafarvaldið láti málið til sín taka þannig að fjármálafyrirtækjum sé unnt að fylgja þeim reglum sem þeim er ætlað að starfa eftir. Skilanefnd Kaupþings og Nýi Kaupþing banki hafa þegar gert Fjármálaeftirlitinu viðvart um málið en stofnunin hefur m.a. það hlutverk að fylgja eftir lögum um fjármálafyrirtæki.
Það skal áréttað að skilanefnd Kaupþings og Nýja Kaupþing taka undir mikilvægi þess að birtar séu upplýsingar sem varpi ljósi á það sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins en að það sé gert eftir löglegum leiðum. Sjúbb!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kristbjörn Árnason, 4.8.2009 kl. 10:11
Rétt hjá þér! Finna verður "bauk", sem bankar hafa ekki aðgang að. Hætta er á frekara hruni í efnahagskerfi heimsins og þá er úr vöndu að ráða.
Auðun Gíslason, 4.8.2009 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.