Lifi spillinginn! Niður með siðbótina!

Í haust í búsáhaldabyltingunni var mikið rætt um siðbót og þörf á henni í íslensku þjóðfélagi.  Ekkert bólar samt á að nokkuð breytist.  Skipt var um stjórn.  En ekkert breyttist.  Enn eru menn að ráða vini sína í vinnu hjá ríkinu.  Enn valsa hér auðmenn um óáreittir af yfirvöldum.  Enn er verið að einkavæða og selja eigur úr almannaeigu.  Enn láta starfsmenn Reykjavíkurborgar, sem fyrirtækin sem þeir véla um séu þeirra eigin eign, frjálsar til ráðstöfunar.  Enn eru þeir, sem sigldu efnahag þjóðarinnar í strand, að stjórna stærstu fyrirtækjum og fjármálastofnunum, þó ekki hafi þeir verið í sviðsljósinu í góðærinu, heldur setið í stjórnum eða í lykilstörfum ýmsum.  Það berast sífellt fréttir af allskyns handeringum á málum stórskuldara útrásarinnar.  Niðurfærslur og niðurfellingar á lánum þeirra, kaup og sölur á eignum þeirra.  Þeim er verið að bjarga bakvið tjöldin, hægt og hljótt.  Segir almannarómur...Á meðan eru fjöldi heimila í uppnámi vegna afleiðinga hruns auðmannanna og stjórnmálaelítunnar/auðvaldsins.  Eignir brenna upp!  Lánin hækka og hækka, m.a. vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar.  Börnin/unglingarnir komast ekki í skólann.  Bíllinn er tekinn vegna vanskila og lánið heldur samt áfram að hækka.  Ekki er til peningur fyrir mat.  Rafmagnsreikningurinn er ógreiddur.  Heimilið er að leysast upp. 

Arðránið rís hæst núna í kreppunni!  Nú er ekki lengur hægt að ræna launamanninn hluta af virðisauka vinnu hans!  Þá er gengið að sparnaði hans!  Þeim eignum sem hann hefur nurlað saman með vinnu sinni!  Nú skal hann ekki geta brauðfætt sig og sína, og ekki haldið sparnaði sínum!  Ekki menntað börnin sín! 

*** 

Lifi spillingin!  Niður með siðbótina!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Frétti af manni fyrir austan fjall sem sagður var með fullu viti. Langaði að hafa samband við hann og fara þess á leit við hann að hann reyndi að koma vitinu fyrir stjórnvöld. Reyndi að hringja í hann en hann svaraði ekki. Hringdi í ættingja og þeir sögðu að hann hefði lengi þótt undarlegur og hefði verið sendur á hæli.

Árni Gunnarsson, 3.9.2009 kl. 13:00

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Stærsta siðbótin hefði orðið ef fjórflokkarnir hefðu verið leystir upp í frumeindir sínar í síðustu þingkosningum.

Fjórflokkarnir hafa nær 80 ára samvinnu að baki til þess að festa sjálfa sig í sessi og setja lög sem koma í veg fyrir að veldi þeirra sé ógnað.  Í orði kveðnu á það að heita að koma í veg fyrir "öfgaflokka" á þingi.  Bara sú afsökun er allt of huglæg til þess að eiga erindi inn í íslensk lög.

Forystumenn fjórflokkanna láta opinberlega sem þeir séu hinir verstu óvinir en prívat sitja þeir fjölskylduboð hvers annars.  

Kolbrún Hilmars, 3.9.2009 kl. 14:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband