Kosningasjónvarpið. Vanræksla ríkisstjórnarinnar.

Ég tek undir það, að uppstillingin á frambjóðendum er dálítið sérkennileg í sjónvarpinu, nema hún eigi að undirstrika að stjórnarflokkarnir ganga ekki óbundnir til kosninga. Óskýr orð um eitthvað annað tekur enginn alvarlega, síst þeir sjálfir. Það er alveg víst að framsókn lítur á það sem sína einu von að vera áfram í skjóli íhaldsins. Íhaldið getur hinsvegar ekki hugsað sér betri samstarfsflokk, leiðitamur sem framsóknarflokkurinn er.

Það hefur verið kostulegt að hlusta á stjórnarherrana verja vanrækslusyndir sínar í dag. Geir Haarde í morgunútvarpinu og svo undirsátana í sjónvarpinu. Heilbrigðiskerfið er meira og minna í molum, biðlistar hér og biðlistar þar. Hundruðir sjúklinga og aldraðra húsnæðislaus og vegalaus. Öryrkjar og aldraðir hafa verið látnir sitja á hakanum hvað varðar bætt lífskjör. Vitanlega hafa lífskjör þeirra batnað en ekki nóg til þess að þeir komist almennt upp fyrir fátæktarmörkin. Stjórnarherrarnir viðurkenna að þetta sé búið að vera svona lengi, en segja svo að allt sé í lagi vegna þess að loks er byrjað að greiða úr vandamálunum, sem hafa fengið að bíða óleyst í góðærinu. Skattamálin eru þannig að Geir Haarde fullyrðir, að það kæmi lágtekjufólki ekki betur ef skattleysismörk hefðu hækkað eðlilega með verðbólgu. Betra sé fyrir alla að skattprósentan lækki frekar. Þetta er ekki í takt við verileikann. Og Geir H. Haarde skilur greinilega ekki hvernig kerfið virkar eða vill ekki skilja það! Hækkun persónuafsláttar og þar með skattleysismarka er aðgerð sem kæmi sér best fyrir þá tekjulægstu, en snertir þá tekjuhærra minna. Lækkun skattprósentunnar kemur sér vel fyrir hærri tekjufólk, en skiptir þá tekjulágu minna. Þetta vilja stjórnarliðar ekki viðurkenna; it's a flat earth society! Biðlistarnir á BUGL skipta heldur ekki máli vegna þess að um daginn var tekin skóflustunga! Siv lýgur uppí opið geðið á þjóðinni og þráspurð endurtekur hún þvæluna, sem er í engu samræmi sannleikann. Allt er þetta rugl og vanræksla er svo í fínu lagi vegna þess að kaupmátturinn í efri lögum þjóðfélagsins hefur aukist svo mikið! Hverslags rugl er þetta nú? Ég var svo hættur að fylgjast með lýginni og veruleikafirrtu blaðrinu í stuttbuxnabófanum í sjónvarpinu. Það er takmörk fyrir öllu. En hann var ósvífinn að venju! Ég spyr nú bara, hvernig eiga samviskulausir menn að geta fylgt samvisku sinni sem þingmenn? 


Geir H. Haarde í morgunútvarpinu, og ríkisfjármálin.

 Geir H. haarde var í drottningarviðtali í morgunútvarpinu. Þar var farið um hann silkihöndum einsog vænta mátti á Ríkisútvarpinu.                                                                                                            

Undir lokin á viðtalinu sagði Geir eitthvað á þessa leið:"Það er liðin tíð að stjórnmálamennirnir ráði för í atvinnulífinu." Þá er sem sagt allur áróður stjórnarliða um að það sé hættulegt að hleypa stjórnarandstöðunni í stjórnarráðið, vegna atvinnumálanna, byggður á lygi. Stjórnmálamenn hafa sem sagt ekki þau tök á atvinnulífinu sem þeir höfðu áður. Það er annað sem ég hef áhyggjur af.  Þær áhyggjur eru sprottnar af orðum Einars Odds í Kastljósinu síðastliðinn vetur. Ég skildi hann þannig, að ríkisfjármálin væru í þannig ástandi, að líklega þyrfti að nota símapeningana til að bjarga stöðu ríkissjóðs að loknu þessu þensluskeiði, sem senn líkur. Er nema von, að Jóni stopp og öðrum stjórnarliðum sé um og ó. Það komst nefnilega upp um strákinn Tuma! Ríkisfjármálin eru í slíkum ólestri, að ríkissjóður er orðinn háður þenslunni. Hvort það er vegna nýlegra breytinga á skattalögum veit ég ekki , en orð Einars Odds eru allrar athygli verð. Sérstaklega hljóta þau að vera íhugunarverð fyrir stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar, sem hefur haldið því fram að þeim og þeim einum sé treystandi fyrir ríkisfjármálunum.

 

 


Ósmekklegur málflutningur frambjóðanda framsóknarflokksins!

Helga_S_Hardardottir

Helga Sigrún Harðardóttir bloggar um málefni BUGL. Sérstaklega fer í taugarnar á henni að  Samfylkingarfólk skuli tjá sig um þetta mál. Reynir hún að gera Samfylkinguna og R-listann ábyrgan fyrir biðlistunum á BUGL. Einsog fleiri framsóknarmenn gleymir hún að framsóknarflokkurinn stóð að R-listanum með Samfylkingunni og VinstriGrænum. Það ósmekklega í þessu máli er, að Helga Sigrún notar þetta grafalvarlega mál til að fara í pólitískar hártoganir með það. Það er greinilegt að þjáning þessara barna og fjölskyldna þeirra skipta hana engu, bara að hún geti klórað andstæðinginn aðeins. Það er líka alvarlegt að fagmaður, Helgi Viborg, skuli tjá sig með þessum hætti um þetta mál, einsog hann gerir. Fróðlegt væri að vita, hvaða þjónustu hann veitir sjúkum börnum og foreldrum þeirra á Miðgarði milli þess sem hann tjáir sig um málefni þeirra í fjölmiðlum...  Þessi staða er ekki ný á BUGL. Biðlistar hafa verið þar lengi. Árum saman hafa framsóknarmenn setið í heilbrigðisráðuneytinu og jafn lengi hafa sjálfstæðismenn setið í fjármálaráðuneytinu. Jafn lengi hafa vandamál BUGL verið í dagsljósinu, en ekkert verið aðhafst. Sennilega hefur skipt meiru að sýna afgang á ríkissjóði, en að sinna vanda BUGL, sem og fleiri vandamálum í velferðarkerfinu. Málefni BUGL eru á ábyrgð ríkisins en ekki Reykjavíkurborgar, þeim hefur ekki verið sinnt, heldur verið fjársvelt. Húsnæðisvandi og rekstrarfjárvandi BUGL skrifast því á ríkisstjórnina. Miðgarður er ein af hverfamiðstöðvum Reykjavíkurborgar. R-listinn jók við þá þjónustu sem borgin veitir á þessum miðstöðvum (sem eru líka verk R-listans), bæði sálfræðiþjónustu og félagsráðgjafaþjónustu.  Síðan legg ég til að Helga Sigrún Harðardóttir kynni sér málefnin áður en hún tjáir sig um þau annars staðar en í einrúmi. Einnig væri gott að vera minnugur þess, að aðgát skal höfð í nærveru sálar! Munum að hér eiga börnin og fjölskyldur þeirra um sárt að binda. Það er of alvarlegt mál til að vaða í með skítkasti, bæði hér og annarsstaðar! 


Bloggfærslur 24. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband