Samstaða þjóðarinnar væri til bóta! Það eru skætingur og hrokafullar yfirlýsingar stjórnarandstöðunnar hinsvegar ekki!

Hér hefur verið blásin upp umræða, sem helst lýsir sér í skætingi og misvísandi yfirlýsingum.  Stjórnarandstaðan, hrunflokkarnir sérstaklega, töluðu fagurlega um nauðsyn samstöðu stjórnmálamanna.  Það hefur ekki bólað á þessari samstöðu síðan í sumar.  Þessa dagana senda þingmenn stjórnarandstöðunnar frá sér allskyns misvísandi yfirlýsingar.  Þessar yfirlýsingar hafa einkennst af hroka og yfirlæti.  Reynslu litlir forystumenn stjórnarandstöðunnar virðast telja, að samstaðan eigi að vera á þeirra forsendum eingöngu.  Það er misskilningur.  Samstaðan hlýtur í þessu máli að hafa stefnu stjórnarinnar sem upphafspunkt.  Og síðan að vinna saman í samtölum, ekki í fjölmiðlum, að því að komast að samkomulagi um breytingar á þessari stefnu.  Ef það er mögulegt!

Ríkisstjórnin fékk Icesave-málið í hendurnar frá ríkisstjórn Geirs H. Haarde.  Sú ríkisstjórn hafði reynt sitt besta vil ég segja til að leysa málið við ómögulegar aðstæður.  Undir pressu höfðu ráðherrar, í samráði við ríkisstjórn, undirritað samkomulag og samning.  Þessir samningar hafa í raun verið útgangspunktar viðsemjenda Íslendinga síðan.  Hin umsömdu viðmið (feitletrað hér að neðan) eru holan, sem málið hefur verið í.  (Þrasið um vaxtamálin ætla ég að láta liggja milli hluta, enda hafa menn jafnvel vísað í stýrivexti í ESB til að sanna hversu óheyrilega háa vexti við eigum að borga, skv. Icesave1 og Icesave2).

Fáránlegar yfirlýsingar í anda Ketils Skræks hafa enga þýðingu.  Menn geta verið kokhraustir í lýðskrumi sínu, þegar það á við.  Núna eru ekki tímar fyrir slík stórmennskulæti. Við erum smáþjóð í slæmri stöðu.  Viðsemjendur okkar eru valdamiklar þjóðir með ESB á bak við sig.  Við skulum líka muna, hvað afl og hvað vald, er að baki ESB.  Það er hið alþjóðlega auðvald, sem ræður allri framgöngu mála.  Af efnahagslegu valdi sprettur hið stjórnmálalega vald!

Samningar ríkisstjórnar Geirs H. Haarde fyrir hönd þjóðarinnar 10. október 2008 og 16. nóvember 2008! Þannig hófst samningaferlið!

Samkomulag milli Hollands og Íslands um IceSave

11.10.2008

Að loknum uppbyggilegum viðræðum hafa hollensk og íslensk stjórnvöld náð samkomulagi um lausn mála hollenskra eigenda innstæðna á IceSave-reikningum Landsbankans.

Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta.

Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.

Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna.

 

Samkomulag næst við Evrópusambandið fyrir hönd Hollendinga og Breta - Greiðir fyrir láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF)

16.11.2008

Mikilvægur áfangi hefur náðst til lausnar deilunnar um innstæðutryggingar vegna íslenskra bankaútibúa á Evrópska efnahagssvæðinu og stöðu sparifjáreigenda í þeim. Viðræður Íslands við nokkur Evrópusambandsríki, sem komust á fyrir tilstilli Frakklands sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, leiddu til samkomulags um viðmið sem lögð verða til grundvallar frekari samningaviðræðum.

Samkomulagið felur í sér að íslensk stjórnvöld ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Endanlegur kostnaður ríkissjóðs vegna þessa mun ráðast af því hvað greiðist upp í innstæðutryggingar af eignum bankanna. Einnig er kveðið á um að Evrópusambandið, undir forystu Frakklands, taki áframhaldandi þátt í að finna lausnir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármálakerfi og efnahag.

Aðilar eru ásáttir um að hraða fjárhagslegri aðstoð við Ísland, þar með talið samþykkt lánafyrir­greiðslu sem beðið hefur samþykktar stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) undanfarnar vikur. Erindi Íslands hjá IMF verður tekið til afgreiðslu hjá sjóðnum miðvikudaginn 19. nóvember.

Umsamin viðmið

  1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/EB. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í lög­gjöf­ina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahags­svæð­ið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
  2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samninga­viðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóða­gjald­eyris­sjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
  3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

Reykjavík 16. nóvember 2008


mbl.is Jóhanna skilur reiði almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband