14.3.2010 | 16:55
Óábyrgum og trúgjörnum lántakendum bjargað! Hvað um tekjulágu heimilin?
Það hefur greinilega haft forgang í stjórnkerfinu og bankakerfinu að bjarga þeim, sem tóku ekki ákvarðanir sínar á eðlilegum forsendum, heldur trúðu bönkum og allskyns fjármálaspekingum. Þeim sem á að hjálpa nú töldu hag sínum best borgið með gengistryggðum lánum annarsvegar og hinsvegar með 100% lánum af kaupverði. Sama sagan er um íbúðalán. Þeir sem eru með gengistryggð lán eða keyptu svo stórar eignir að ekkert minna en 80-100% lán af kaupverði dugði til, þeim skal bjargað. Reyndar er búið að bjóða uppá niðurfærslu hjá þeim sem tóku 80-100% lán. Þeim er boðið uppá niðurfærslu höfuðstóls niður í 110% af fasteignamati (1.1.2010). Hvert mannbarn, sem orðið er lögráða mátti vita að gengi krónunnar gat fallið hvenær sem er! Og sama má segja um verðtryggðu lánin. Eða vorum við farin að trúa að hin svokallaði stöðugleiki í efnahagslífinu myndi haldast? Ég trúði því reyndar sjálfur að greiðslubyrði láns, sem var að höfuðstóli á bilinu 55-60% af markaðsvirði, gæti ekki breyst svo að yrði illkljúfanleg. Fannst ótrúlegt að stjórn landsins yrði nokkurtíma svo aum, þó aum væri. En það ótrúlega gerðist. Stjórn landsins var svo aum, að hér fór efnahagskerfið á hvolf fyrir augunum á stjórnmálaelítunni. Og það gerðist ekki svona alltíeinu, einsog haldið hefur verið fram af sömu elítu (með örfáum heiðarlegum undatekningum). Aðdragandinn var langur og lengi hefði verið hægt að snúa við gangi mála. Það var ekki gert vegna þess að það hefði strítt gegn þeirra hugmyndafræði, sem hér réð ríkjum í boði helmingaskiptaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks!
Áfram að skuldamálum heimilanna. Tveir hópar eru í verstri stöðu. Það eru yfirskuldsett heimili og svo heimili með lágar tekjur. Hinir tekjulágu áttu, og eiga enn, eðli málsins skv. aðeins lánamöguleika hjá Íbúðalánasjóði. Þessum hópi hafa aðeins staðið til boða bráðabirgðalausnir, sem miða að því að gera þeim kleyft að fljóta meðan ekki sekkur. En það kemur að því skúta sekkur hjá flestum slíkra heimila. Sérstaklega í ljósi þess að endurreisn efnahagslífsins hefur verið látin mæta afgangi vegna karps um mál sem skipta í raun minna máli fyrir þjóðina! Niðurfærsla á höfuðstóli húsnæðislána þessara heimila virðist aðeins fjarlægur draumur í öllum bægslaganginum kringum hina óábyrgu og trúgjörnu!
Tekjulág heimili eru greinilega í þeim vanda, að þeir sem hæst láta um hagsmuni heimilanna, eru í hópi þeirra stétta, sem höfðu aðgang að lánum í bönkum til húsnæðiskaupa vegna góðra tekna og svo þeirra, sem töldu hag sínum best borgið með gengistryggðum lánum og vilja nú að aðrir bjargi þeim, þegar dæmið gekk ekki upp. Hvorugir græddu nefnilega á öllu saman einsog þeir trúðu á sínum tíma og til stóð!
Man einhver þegar allskyns viðurkenndir álitsgjafar voru að mæra hin gengistryggðu lán (t.d. Egill Helgason) eða þegar menn djöfluðust á Íbúðalánasjóði? Töldu honum allt til foráttu og vildu leggja hann niður? Hið frjálsa bankakerfi einkaframtaksins gæti sko gert miklu betur en það ríkisbatterí!
Óttast ekki lögsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Auvitað er þetta hinn bitri sannleikur í hnotskurn. Alltof lengi er búið að væflast með þessar skuldir heimilanna með vinnubrögðum sem fela ekki í sér neina lausn en fresta aðeins því óhjákvæmilega sem er uppgjöfin fyrir bitrum sannleika. Ég hef það á tilfinningunni að þessi sannleikur sé eitthvað að þokast nær hugskoti stjórnvalda en þau hafa ekki ennþá kjark til að horfa framan í vandamálið nema með sólgleraugum.
Stjórnsýslan brást eins fullkomlega og hugsast gat. Í ræfildómnum var haldið í "þetta reddast boðorðið" sem aldrei hefur verið viðurkennd pólitísk leið út úr neinum vanda.
Staðreyndin er einfaldlega sú að fjöldagjaldþrot heimila blasir við um allt land. Þeir sem í því lenda geta sjálfum sér um kennt að hafa trúað pólitískum roðhænsnum og svonefndum þjónustufulltrúum bankanna sem sátu í búrum banka og fésýslustofnana vel klæddir í straujuðum skyrtum og "töluðu tungum" með hlýju viðmóti og sannfærandi. Traustið lak af viðskiptavinunum og myndaði poll á gólfinu. Síðan var tekist í hendur og velfarnaðar beiðst. Nýtt og áhyggjulaust líf blasti við í boði lánastofnunarinnar.
Og þessi grátbroslegi leikur þjófsins að grunlausu fólki hélt áfram þar til allt lokaðist og lyklinum var snúið í skránni.
Ef stjórnvöld meina eitthvað með öllu rausinu um áhyggjur af fólki þá verða þau að skilja og viðurkenna það að fólk er mikilvægara en fésýslustofnun. Og einu gildir þótt umrætt fólk hafi verið svo heimskt að trúa þjófnum eða þjófunum. Því þarna er um raunverulegan þjófnað að ræða og í stöðunni má einu gilda hvort þjófurinn stal af fólkinu í góðum tilgangi eða slæmum.
Það innheimtir nefnilega enginn milljónar- eða milljóna - skuld af manni sem á ekki fyrir skólamáltíð handa barninu sínu. Eins hvort hann var heimskur eða ekki þegar hann stofnaði til skuldarinnar.
Grimmileg staðreynd að vísu en óhrekjanleg.
Árni Gunnarsson, 14.3.2010 kl. 17:25
Sæll! Það er náttúrurlega þannig, að þeir sem ráða för, nú sem fyrr, eru þeir sem trúa á alsælu markaðarins! Árni Páll og hinn andvana Gylfi Magnússon. "Mikilvægast er að þeir einir fái bónus sem eiga hann skilið," er haft eftir Gylfa í blablainu í morgun. Eru þessir sem eiga bónusinn skilið þeir sem koma flestum á kaldan klaka? Bankamenn sem settu þjóðina á hausinn með vinum sínum, þóttust nú aldeilis "eiga hann skilið", þ.e. bónusinn! Og fáir mótmæltu!
Gylfi er ansi bláeygur þykir mér! Bónusarnir eru ein af rótum þess vanda sem við erum stödd í! Hann er kannski ljóska líka? Allavega blasir við trú hans á alsæluna!
Auðun Gíslason, 15.3.2010 kl. 11:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.