23.4.2007 | 18:03
Spurningar til allra framboða. Tekjuskerðingar Tryggingastofnunar.
Verða eftirtaldar skerðingar á lífeyri frá Tryggingastofnun afnumdar á næsta kjörtímabili?
Greiðslur frá lífeyrissjóðum: Ekki var hugmyndin í upphafi að greiðslur úr lífeyrissjóðum skertu lífeyri frá Tryggingastofnun. Þær voru upphaflega hugsaðar sem hrein viðbót við greiðslur frá almannatryggingakerfinu. Nú skerða þessar greiðslur allt nema grunnlífeyri. Verður þetta leiðrétt á næsta kjörtímabili?
Tekjur maka. Tekjur maka skerða greiðslur frá Tryggingastofnun. Fullyrt er að þetta sé stjórnarskrárbrot, fyrir nú utan ósanngirnina sem þetta felur í sér. Verður þetta leiðrétt á næsta kjörtímabili?
Atvinnutekjur. Þar til nú nýverið skertu allar atvinnutekjur greiðslur frá Tryggingastofnun. Nú er lífeyrisþegum boðið að vinna fyrir heilum 25.000 krónum á mánuði án þess að lífeyrir skerðist. Og setur nú hlátir að ýmsum! Verður þessi upphæð hækkuð á kjörtímabilinu eða skerðingin alveg afnumin?
Öryrkjar. Eins og dæmin sanna eiga öryrkjar erfitt með að komast aftur útá vinnumarkaðinn, þ.e. þannig að það bæti stöðu þeirra. Mörg dæmi eru um öryrkja sem hafa aflað sér menntunar, en ekki haft erindi sem erfiði þegar kemur að því að fá vinnu sem bætir stöðu þeirra fjárhagslega, samræmist reynslu þeirra og menntun og þeir ráða við/hafa getu til stunda. Er nýlegur dómur hæstaréttar (29/3 2007) dæmi um þetta. Lög sem tryggja eiga rétt öryrkja til vinnu hjá sveitarfélögum og ríki eru brotin. Annað sem er í veginum er skerðing sú sem strax kemur til framkvæmda fái öryrki vinnu. Örorkumat er jafnvel fellt úr gildi, einsog um eitthvert samband sé þar á milli. Þessu þarfað breyta. Verður eitthvað raunhæft gert til að auðvelda öryrkjum að komast aftur til starfa á vinnumarkaði? Þ.e.a.s. þannig að það bæti stöðu þeirra í lífinu, því til lítils er unnið ef svo er ekki. Þá eru öryrkjar betur komnir þar sem þeir eru, ef það að fara í vinnu bætir ekki stöðu þeirra. Það sem er í farvatninu varðandi þetta eru draumórar einir, ef ekki koma til raunhæfar lausnir á þeim vandamálum sem mæta öryrkjum sem vilja reyna fyrir sér á vinnumarkaðnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.