22.11.2007 | 13:53
Kærleikssiðfræði eða lögmálið?
Lögmálssiðfræði eða kærleikssiðfræði? Hvað vilt þú?
Hvað oft frelsarinn sniðgekk þær reglur og þau lögmál sem ríktu í samfélagi Gyðinga á hans tíma vitum við ekki, en um nokkur slík dæmi má lesa í Guðspjöllunum. Þetta gerði hann til að undirstrika boðskap sinn. Mér er alveg óskiljanlegt, að við kristnir eigum að lifa í skugga lögmáls Gyðinga. Ætli færi þá ekki að fara um marga. Á að lífláta fólk í samræmi við lögmálið, þar sem það á við samkvæmt lögmálinu? Eiga konur að þola að undirgangast þær reglur, og framkomu, sem viðhafðar voru skv. Gamla Testamentinu? Eða eigum við að týna til eitthvað sem hentar okkur í það og það skiptið? Má nefna afstöðina til mála eins og stofnfrumurannsókna, afstöðuna til samkynhneigðra, prestsþjónustu kvenna o.s.frv. Kannski má eiga von á sömu afstöðu til þeirra sem uppvísir verða af hórdómi, til réttinda kvenna, til mágaskyldunnar, til sjúkra og fatlaðra (þeir eru taldir syndarar, þessvegna eru þeir sjúkir eða fatlaðir). Sjálfsagt mætti halda áfram til eilífðarnóns, en mig brestur þekkingu til að telja upp allar þær reglur og lög sem gamla lögmálið býður mönnum að búa við. Mér skilst að lögmálsþrælkunin leggi á menn að fylgja nær 600 reglum og lögum í sínu daglega lífi, og þá er ekki verið að tala um mannanna lög, heldur lög og afleiddar reglur gamla lögmálsins. Kristnir lögmálsdýrkendur leggja mikla áherslu á gamla lögmálið, en virðast gleyma nýja lögmálinu sem Jesú færði okkur, að minnsta kosti er þeim ekki jafn tíðrætt um það sumum. "Kjarni kenningarinnar um guðsríkið, að það væri komið í Jesú og með honum, varð til þess að Jesú hafnaði lögmáli gyðinga, eða uppfyllti það eins og hann sjálfur sagði.......Eina boðorðið sem einhverju skipti að dómi Jesú, var að elska guð og náungann eins og sjálfan sig, hið tvöfalda kærleiksboðorð. Í stað lögmálssiðfræði kom kærleikssiðfræði. Áður hafði maðurinn þurft að fylgja lögmáli til að frelsast. Nú skyldi kærleikurinn settur í öndvegi" (Þórhallur Heimisson, Hin mörgu andlit trúarbragðanna).
Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti. Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn. (Orðkviðirnir 10, 12-13). Þó ekki vöndur lögmálsins eða hvað?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt 14.1.2008 kl. 17:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.