24.5.2008 | 22:08
Að gefa það sem maður ekki á! 60 ára hernám Palestínu!
Svona lítur Palestína út í dag. Landamæri Ísrael hafa lítið breyst síðan 1999. En svona sýna Ísraelar skiptingu Palestínu. Hertekin svæði teljast Ísraelskt land (hvítt)!
Skv. samþykkt Sameinuðu Þjóðanna 1947 skyldu Gyðingar fá 55% af landi Palestínu. Gyðingar voru 30% af íbúum svæðisins, flestir aðfluttir flóttamenn vegna ofsókna í Evrópu og ekki bara í Nazistaríkinu. Palestínumenn voru 70% íbúanna og áttu að fá 45%. Þeir höfðu verið búsettir þarna gegnum aldirnar eða allt frá því byggð hófst á svæðinu. Gyðingar höfðu að vísu búið þarna fyrir um 2000 árum, en verið brottreknir þaðan um 70 e.kr. Samþykkt SÞ var gerð í skugga hroðalegra atburða í Heimstyrjöldinni. Þýska þjóðin í Nazistaríkinu hafði verið alveg einstaklega afkastamikil við að útrýma Gyðingum. Svo mjög að það gekk jafnvel fram af þjóðum sem höfðu dundað sér við það gegnum aldir að níðast á þessari landlausu flökkuþjóð, hvar sem þetta fólk setti sig niður. Þegar afköst Nazistaþjóðarinnar voru dregin fram í dagsljósið fylltust Evrópuþjóðir og Ameríkanar þvílíku samviskubiti, að rokið var í að samþykkja stofnun Gyðingaríkis í landi Palestínsku þjóðarinnar. Þessar sömu þjóðir höfðu lokað augunum fyrir ofsóknum gegn Gyðingum í Þýskalandi fyrir stríð og sent flóttamenn rakleiðis til baka til Þýskalands, þar sem þeir voru myrtir! Þetta gerðum við Íslendingar. Þess má geta að það var íslenski sendiherra hjá SÞ sem lagði fram tillöguna um stofnun Ísraelsríkis á þingi SÞ. Á þessum tíma var Palestína hersetin af Bretum. Gyðingar á svæðinu ráku hryðjuverkastarfsemi gegn Bretum til að fá sínu framgengt og til að hrekja Breta burt af svæðinu. Foringjar þessara hryðjuverkamanna urðu síðar leiðtogar Ísraelsríkis.
Í dag búa Palestínumenn á 20% af landi sínu. Á landskikum sem eru girtir af með girðingum og múrum. Þeir hafa aldrei samþykkt skiptingu lands síns. Þeir hafa reynt að spyrna við fótum og barist gegn þessu ríki sem var stofnað á landi þeirra að þeim forspurðum. Þeir hafa barist fyrir landi sínu og rétti til lífs í eigin landi. Þeir hafa liðið fyrir að eiga ekki viðurkennt sjálfstætt ríki. Og ekki hefur alþjóðasamfélagið stutt þá heldur innrásarmennina!
Ég veit ekki um neina þjóð sem myndi láta bjóða sér svona framkomu. Er einhver þjóð tilbúinn til að afhenda 45% af landi sínu þegjandi og hljóðlaust til að einhver utanaðkomandi trúflokkur/"þjóð" geti stofnað ríki á því landi. Þessu urðu Palestínumenn að sæta. Nú er það spurning og hefur verið lengi. Hvenær verður alþjóðasamfélaginu nóg boðið? Verður það einhverntíma?
Þeim sem vilja fræðast um þessi mál er bent á Vísindavefinn. Set hér inn link, þar sem verið er að fjalla um aðdragandann að stofnun Ísraelsríkis. www.visindavefur.is/svar.php?id=6159 Neðst á þessari síðu eru svo linkar á fleirri svör á Vísindavefnum um þessi mál. Þessar greinar eru skrifaðar af virtum fræðimönnum, sem þekkja vel til málefna svæðisins, en eru ekki fullir af kreddum og alskyns bábyljum um málefnið!
www.btselem.org/english Þetta er vefsíða sem vert er að skoða. Ísraelsk mannréttindasíða sem lætur sig varða mannréttindi Palestínumanna og Ísraela.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.5.2008 kl. 23:07 | Facebook
Athugasemdir
Jón Valur er örugglega til í að gefa Zíonistum landið sitt, og húsið sitt.........
Haraldur Davíðsson, 24.5.2008 kl. 22:34
Kannski er rétt að halda Jóni greyinu ekki fyrir utan þessa umræðu! Er að spá í að opna fyrir athugasemdir frá honum. Tek mér viku umhugsunarfrest!
Auðun Gíslason, 24.5.2008 kl. 23:44
Meirihluti þeirra gyðinga sem bjuggu í Palestínu í því landi sem við köllum nú Palestínu og Ísrael árið 1948 höfðu hrökklast frá öðrum hlutum fv.Ottómanaríkisins og hópast saman þar. Þjóðflutningar af því tagi voru algengir á þeim tíma.
Ef að "lögmæt" aðsetursvæði þjóða og þjóðabrota á því svæði sem var Ottómanaríkið á sínum tíma væru miðuð við t.d árið 1800 þá er ca. 10-15% af öllu landi í M-Austurlöndum og Balkanskaga "stolið" land.
Ég minni líka á að Palestínumenn misstu ekki stóran hluta lands síns af þeirri einföldu ástæðu að á þessum tíma voru engir Palestínumenn til. Palestína var landafræðiheiti með óljósa merkingu á þessum tíma - það var t.d allur gangur á því hvort að átt var við landið vestan Jórdanár eða hvort að Jórdanía var líka með þegar orðið var notað. Það hafði aldrei verið til neitt sem hét palestínsk þjóðarvitund.
Eins vil ég benda á að myndin er villandi. Fyrsta myndin sýnir einungis ræktarland í eigu gyðinga. Óbyggð svæði (t.d Negev eyðimörkin) eru merkt eins og þau séu byggð Palestínumönum. Aðeins um þriðjungur lands á svæðinu var í rækt árið 1948.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 03:18
"...á þessum tíma voru engir Palestínumenn til." Það var og.
Auðun Gíslason, 25.5.2008 kl. 11:30
Ég vil benda Hans Haraldssyni og öðrum sem vilja fræðast á Vísindavefinn.
www.visindavefurinn.is/svar.asp?id=1828 Hans hefði gott af því að lesa þetta.
Auðun Gíslason, 25.5.2008 kl. 12:27
Kannski er Hansi búinn að lesa of mikið.......
Haraldur Davíðsson, 25.5.2008 kl. 12:30
Nei, nei, Hans er mjög fróðleiksfús og hefur áhuga á fá hinar bestu fáanlegu upplýsingar um mál!
Auðun Gíslason, 25.5.2008 kl. 13:58
Hvað stendur þarna sem er í mótsögn við það sem ég skrifaði?
Mér sýnist þetta bara vera venjuleg frásögn út frá sjónarhorni sem hallar frekar til vinstri/í Palestínuátt.
Fyrir mitt leiti þykir mér vanta nokkrar mikilvægar staðreyndir (t.d um uppruna gyðingana sem stofnuðu Ísrael og settust þar að á áratugunum á eftir) og ýmislegt til þess að setja atburðina í samengi (t.d þjóðflutningar/þjóðernishreinsanir í Grikklandi og Tyrklandi, staðsetningu Armeníu, byggð múslíma í Kosovo).
Eini stóri gallinn á þessari frásögn Magnúsar er að hann lætur eins og það hafi verið til eitthvað sem hét palestínsk þjóðarvitund árið 1948. Ríki Palestínuaraba hefði verið reglustrikuríki, rétt eins og Sýrland eða Írak.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 25.5.2008 kl. 18:50
1939 töldu Bretar samt ástæðu til að gefa út "white paper" sem innihélt áætlanir um sjálfstjórnarsvæði innan væntanlegs ríkis Palestínumanna. Annars felst aðal mótsögn þín í því að að halda því fram að á þessum tíma hafi "engir Palestínumenn verið til" á því svæði sem við "nú köllum Palestínu." Segðu okkur þá hvenær Palestínumenn urðu til og hvenær farið var að kalla þetta landsvæði Palestínu og hvaða fólk var þetta sem bjó á þessu landsvæði með Gyðingum(?), sem hét eitthvað annað en Palestína. Það er merkilegt, hvernig þú telur þig geta vegið að fræðimannaheiðri Magnúsar. Þú telur hann greinilega hlutdrægan og hnika til staðreyndum Segðu mér eitt, ert þú sérfræðingur í málefnum þessa svæðis heimsins. Það er Magnús og gegnir prófessorsstöðu sem sérfræðingur í málefnum svæðisins. Og mér vitanlega, hefur hann ekki áður verið sakaður um staðreyndafalsanir á sérsviði sínu eða hlutdrægni!
Auðun Gíslason, 25.5.2008 kl. 22:45
Annars er langur vegur frá þessum sagnfræðilegum pælingum þínum til þess ástands sem pistillinn fjallar um Hvað kemur byggð Múslima í Kosovo þessu málefni við. Ef það verður að þræða allan anga sagnfræðinnar í umræðu um þetta málefni, þá endist víst engum núlifandi aldur til að komast á leiðarenda!
Auðun Gíslason, 25.5.2008 kl. 23:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.