Ræða Lilju Mósesdóttur: AF BRAUT NÝFRJÁLSHYGGJUNNAR!

Í þessari ræðu minnist Lilja meðal annars á að losna við AGS.  

Af braut nýfrjálshyggju

Byggt á ræðu á Alþingi í umræðum um skýrslu forsætisráherra um efnahagsmál

26.5.2009 9:00 Ræður - Lija Mósesdóttir

Aldrei aftur hafa horfur í efnahagsmálum verið jafn dökkar og nú við endalok nýfrjálshyggjunnar á Íslandi. Heilt bankakerfi hefur hrunið, gengi krónunnar fallið meira en fordæmi eru fyrir, fjármagnsauður landsmanna þurrkast út og gjaldþrot blasir nú við fjölda fyrirtækja og heimila.
Það sorglega við stöðuna í dag er að koma hefði mátt í veg fyrir banka- og gjaldeyriskreppuna, ef vilji hefði verið til að læra af mistökum annarra þjóða. Frá 1970 til 2007 lentu 42 lönd í nákvæmlega sömu aðstæðum og við erum í í dag eftir að hafa aukið frelsi í bankaviðskiptum.

Dýr tilraun

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að kostnaður skattgreiðenda af fjármálakreppu nemi um 10% af vergri landsframleiðslu. Tilraun íslenskra stjórnvalda til að koma hér á óheftum markaðsbúskap mun því kosta skattgreiðendur um 146 milljarða króna. Það er sú upphæð sem ríkið mun innheimta á þessu ári í virðisaukaskatt og á að duga til að fjármagna útgjöld til félags- og tryggingamála auk menntamála að stórum hluta.

Endurreisnin sem bíður nýrrar ríkisstjórnar er eitt umfangsmesta og mikilvægasta verkefni stjórnvalda frá því grunnur var lagður að sjálfstæðu efnahagslífi hér á landi. Í skiptum fyrir lán á bankabók í New York hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að fara eftir efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem felur m.a. í sér hátt vaxtastig til að ná fram fjármálastöðugleika.
Hátt vaxtastig hefur dýpkað fjármálakreppuna á Íslandi og tafið fyrir endurreisninni. Nýju bankarnir geta t.d. ekki birt efnahagsreikninga sína, þar sem rekstur þeirra er ekki lífvænlegur á meðan að vextir á innlánum hér á landi eru mun hærri en vextir af eignum þeirra erlendis.

Lægri vexti eða burt með AGS

Lækki vextir ekki á næstunni verður ríkisstjórnin einfaldlega að afþakka efnahagsráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að forða þjóðinni frá gjaldþroti. Óþarfi er að bíða í mörg ár eftir aðild að Evrópusambandinu til að ná fram vaxtalækkun hér á landi. Ríkisbankarnir geta einfaldlega tekið ákvörðun um að lækka vexti niður í 5% eða til samræmis við vaxtastig í öðrum löndum.
Á útrásartímabilinu jókst ójöfnuður meira hér á landi en annars staðar í Evrópu, m.a. vegna skattalækkana og rýrnunar skattleysismarka og vaxtabóta. Það voru því margir sem ekki nutu góðs af góðærinu og reyndu að bæta sér það upp með lántöku. Skuldsett heimili þurfa nú að taka á sig auknar byrðar í réttu hlutfalli við skuldastöðu þeirra.

Fyrstu aðgerðir stjórnvalda eftir bankahrunið fólust hins vegar fyrst og fremst í því að vernda hagsmuni fjármagnseigenda. Bankainnstæður voru tryggðar að fullu og eignir í peningamarkaðssjóðum ofmetnar. Aðgerðirnar kostuðu skattgreiðendur mikið fé, en urðu til þess að margir héldu ótrauðir áfram að eiga innstæður á bankareikningum.

Átta mánuðum eftir hrunið eru engin áform uppi um að jafna betur skuldabyrðar fjármálakreppunnar, þrátt fyrir að eftirspurn í hagkerfinu hafi hrunið vegna kjararýrnunar og aukinnar greiðslubyrði.
Íslenskt samfélag virðist því enn fast í gildum útrásarinnar sem birtast m.a. í  skoðunum eins og hver er sinnar (ó)gæfusmiður. Gremja og reiði fer því vaxandi meðal þeirra sem misst hafa vinnuna, eru gjaldþrota og að kikna undan skuldabyrðinni.

Svigrúm til að jafna stöðuna

Ríkisstjórnin verður að grípa til aðgerða sem tryggja efnahagslega og félagslega velferð til að afstýra upplausn í samfélaginu. Efnahagsstöðugleiki tryggir ekki endilega velferð, því honum er hægt að ná við jafnt mikið sem og lítið atvinnuleysi.

Þegar einkabankarnir hrundu var Ísland í hópi 10 ríkustu þjóða heims og atvinnuþátttaka mest hér á landi samanborið við önnur OECD-lönd. Á Íslandi er meira svigrúm til þess að jafna vinnu, tekjur og skuldir en í flestum öðrum þjóðum/löndum ? sem farið hafa í gegnum fjármálakreppu.

Endurreisn íslensks samfélags snýst því fyrst og fremst um vilja til að umbreyta samfélaginu, þannig að sem flestir geti og vilji búa hér áfram. Ef núverandi ríkisstjórn grípur ekki til aðgerða með sanngirni, jöfnuð, kvenfrelsi og réttlæti að leiðarljósi verður hún aldrei neitt annað en síðasti kaflinn í sögu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi.

Lilja Mósesdóttir
höfundur er alþingiskona Vinstri grænna

Til bakaPrenta grein Senda grein Senda á Facebook

Athugasemdir (12)

  1. Héðinn Björnsson skrifar:

    Vá! Síðasti kaflinn í sögu nýfrjálshyggju á Íslandi er ein beittasta setning sem ég hef heyrt lengi!

    Þú stendur þig!

    26.5.2009, kl. 9:28 | #

  2. Ágúst Valves Jóhannesson skrifar:

    Ekki meiri nýfrjálshyggju og ekki meiri frjálshyggju.

    26.5.2009, kl. 9:36 | #

  3. Jón Hjartarson skrifar:

    Ég verð að segja það, að einhvern veginn hugnast mér tónninn og boðskapurinn í þessari grein. Mér sýnast veður válynd í samfélaginu og nauðsynlegt að mæta þeim kröfum sem uppi eru með einhverjum þeim hætti til að slái á ólguna.Það er mjög margt sem bendir til þess að menn verði að finna leið til að jafna skuldabyrðina þannig að hún hvíli ekki eingöngu á skuldurum. Ég trúi því að Lilja hafi rétt fyrir sér að nauðsynlegt séað hætta samstarfi við AGS ef ekki tekst að lækka vexti. Allt samfélagið hrópar á lækkun vaxta, atvinnulífið kemst ekki af stað, atvinnuleysið vex, skuldir heimilanna verða stöðugt óviðráðanlegri meðan vöxtunum er haldið uppi o.s.frv.
    Það er nauðsynlegt fyrir ráðherra og þingmenn Vg að taka mark á skoðunum eins og Lilja setur fram hér að ofan, skoða þær ofan í kjölinn og finna þeim aðgerðafarveg. Vg hefur ekkert að gera í ríkisstjórn ef samstarfið leiðir ekki til endurreisnar á grundvelli sanngirni, jafnaðar og frelsis. Náist ekki þessar áherslur út úr samstarfinu við Samfylkinguna verður að endurskoða það, ekki síður en samstarfið við AGS. Það yrðu óhugnanleg örlög ef það yrði hlutskipti VG, loksins þegar hún kemst í ríkisstjórn, ef fólkið á götunni myndi hrópa okkar fólk niður vegna þess að það hefði brugðist eðlilegum væntingum, sem m.a. birtust í úrslitum kosninganna.

    26.5.2009, kl. 9:54 | #

  4. TH skrifar:

    Lilja.
    Þú hefur sterkari réttlætiskennd en báðir stjórnarflokkarnir til samans.

    26.5.2009, kl. 10:04 | #

  5. Guðmundur skrifar:

    Og enn er verið að vernda fjármagnseigendur hvort sem það eru einhverjir "úti í bæ" eða ríkið sem er að verða einn sá stærsti og ráðandi á markaði fyrir utan lífeyrissjóði.

    Það er ekkert mál að skera niður og greiða niður skuldir það getur verið gert eins og á hverju heimili,

    Allur óþarfi skorin niður t.d. skemmtanir og fl.

    Í ríkisrekstri þýðir þetta einfaldlega niðurskurð á öllu til lista og menningar því sagan sannar að listafókið okkar er betra en svo að það þurfi á styrkjum að halda og okkar helstu menningarafurðir hafa orðið til án styrkja.

    Skera þarf niður allar óarðbærar framkvæmdir og óarðbæran rekstur hverju nafni sem þær nefnast

    Hafið þið kjark til að takast á við svona verkefni eða er ætlar þessi ríkisstjórn að verða eins og allar fyrri - láta allt lenda á heimilunum vegna þess að það er mikilvægara að hafa listavini sína góða ????

    26.5.2009, kl. 10:57 | #

  6. Jakob Þór Haraldsson skrifar:

    Vel orðað hjá TH er hann segir: " Lilja þú hefur sterkari réttlætiskennd en báðir stjórnarflokkarnir til samans." Það liggur í augum uppi að þeim mun fyrr sem þessi auma ríkisstjórn áttar sig á að gera Lilju að viðskiptaráðherra þeim mun betra. Þessi "aðgerðarlausa & ráðvilta ríkisstjórn" er að renna út á tíma! Ég vona innilega að þeir vakni fljótlega til lífs, okkur (einstaklingum & fyrirtækjum) er að blæða út á þeirra vakt - ekki boðlegt - en því miður er Samspillingin enn upp í brú á þjóðarskútunni - ég skil allt það fólk sem flýr land - það stefnir í annað Titanic slys á vakt XS - ótrúlegt afrek hjá þeim auma flokki. Ég samgleðst VG að eiga talsmenn eins og Svandísi, Katrínu & Lilju, þær bera af - margir vildu Lilju kveðið hafa í haust...:).

    kv. Heilbrigð skynsemi

    26.5.2009, kl. 11:30 | #

  7. Benedikt G. Ófeigsson skrifar:

    Mikið er gott að minsta kosti einn þingmaður virðist fær um gagnrýna hugsun.

    Þessi ræða er líklega beittasta gagnrýnin á stjórnina sem fram hefur komið á þessu þingi. Það er heldur sorglegt að eini þingmaðurinn sem heldur uppi vitrænni gagnrýni á ríkisstjórnina kemur úr öðrum stjórnarfloknum. En það er víst ekkert sem kemur á óvart.

    "Endurreisn íslensks samfélags snýst því fyrst og fremst um vilja til að umbreyta samfélaginu, þannig að sem flestir geti og vilji búa hér áfram. Ef núverandi ríkisstjórn grípur ekki til aðgerða með sanngirni, jöfnuð, kvenfrelsi og réttlæti að leiðarljósi verður hún aldrei neitt annað en síðasti kaflinn í sögu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi."

    Þessi orð draga vel saman það sem skiptir máli.

    Ég vona að Lilja verði áfram gagnrýnin á stefnu stjórnvalda.
    Ég vona að fleiri á alþingi fari að stunda gagrýna hugsun og ég vona líka að fjölmiðlar fari að fjalla um ástandið á gagnrýnin hátt. Vonandi áður en það er of seint!!

    26.5.2009, kl. 12:00 | #

  8. Jónína skrifar:

    Loksins er umræðan að komast áfram. Áfram Lilja! Frábært að gagnrýnin komi úr þessari átt, enda er Lilja fulltrúi almennings, réttlætis, jöfnuðar og breytinga og laus við gömul kerfistengsl, sem verða ekki liðin. Vinstri stjórnin verður gagnrýnd frá vinstri og undan þeirri gagnrýni sleppur hún ekki. Minna máli skiptir hvað Bjarni Ben. og Sigmundur Davíð þvæla um úrræðaleysi úr ræðustól Alþingis. Enginn treystir þeirra lausnum, enda engar í boði.

    26.5.2009, kl. 12:14 | #

  9. Ágúst Valves Jóhannesson skrifar:

    Ég held það sé orðum aukið að segja að Lilja Mósesdóttir hafi meiri réttlætiskennd en báðir stjórnarflokkarnir. Orð af þessu tagi dæmast tóm um leið og þau eru skrifuð.

    26.5.2009, kl. 15:11 | #

  10. ggauti skrifar:

    Hressandi að heyra þingmann tala á nákvæmlega sama hátt eftir kosningar og fyrir kosningar. Mér finnst talsmáti æði margra breytast á kosninganóttinni og jafnvel þeir sem ekki sögðu orð fyrir kosningar fá málið þá nótt og runa uppúr sér öllu sem þeim er uppálagt að segja.

    Auk þess er ég sammála þér Lilja en finnst oft á tíðum að allur tími okkar á Austurvelli í vetur hafi verið til lítils. Leyndin og pukrið virðast enn ráðandi og enn bólar ekki á tímasettri aðgerðaáætlun, masterplani, með dagsetningum, tölum og forsendum. Sú áætlun er undirstaða þess að hægt sé að móta sér skoðun á ástandi og horfum. Er það ekki annars?

    27.5.2009, kl. 1:43 | #

  11. Hólmsteinn Brekkan skrifar:

    :-) Gott að sjá að þú ert að vakna.

    Aðeins byrjuð að teygja þig og geyspa.

    Nú er bara að nudda stýrurnar úr augunum og drífa sig framúr!

    Minni í samþykktir landsfundar um leiðréttingu til handa heimilum, afnám verðtryggingu og síðast en ekki síst krafan um upprætingu á glæp aldarinnar, útreikningi vísitölunnar og úrtreiknilíkön bankanna.

    Ekki snooza.... framúr og strax og framkvæma.

    Kv. Hólmsteinn

    28.5.2009, kl. 0:35 | #

  12. Agnar Jón skrifar:

    Ég vildi óska að þingheimur allur tæki sig saman og hlustaði, gagnrýndi og framkvæmdi. Lilja hefur sannað með ræðu sinni að hún hlustar og gagnrýnir eftir rættlætiskennd manneskjunnar en ekki ráðamannsins. En hver á að framkvæma? Getum við búist við því að Ríkisstjórnarflokkarnir komi sér að verki þegar hræðsla þeirra um orðstýr og vinsældir hefur alltaf eitthvað að segja í hverju verki? Getum við treyst fólki sem ráðið er til fjögurra ára til að umbreyta lifnaðarháttum okkar á þann hátt að kyrkingarólin herpist að í fyrstu til að ná umbótum seinna? Þýðir það ekki að ótti þeirra er á rökum reistur? Ef sársaukafulla aðferðin er farin (kyrkingarólin) umturnast samfélagið gegn þeim sem vilja með illu illt út reka og þau enda atvinnulaus eftir 4 ár. Við getum ekki búist neinum lausnum frá Alþingi þar sem raddir eins og Lilju eru í fyrsta lagi fáheyrðar og í öðru lagi hefur tíðarandinn ekki enn þróast á þá leið að almenningur spyrji sig hvað hann getur gert og hætt að bíða eftir lausnum frá Austurvelli.
    Lausnirnar koma ekki þaðan, þær koma frá mér og þér. Alþingismenn og -konur eru föst í límklessu við sæti alþjóðlegs samningaborðs og munu ekki slíta sig laus í nánustu framtíð, hvað þá líta upp og verkstýra samfélaginu.
    Almenningur verður að gera eitthvað í málunum sjálfur. En hvað?
    Þessi borgari sem skifar hér hefur ekki hugmynd um hvað hann á að gera til að vinna að endurreisn lands og þjóðar. Hann situr ekki við samningaborð í eigin persónu og hefur þar af leiðandi ekkert um greiðslufresti og prósentustig að segja en hann hefur orku og tíma til að framfylgja áætlun sem gæti verið þjóðinni til heilla.
    Ég hef tíma og ég vil vinna. Lilja, hvað leggur þú til að einn maður úti í bæ geri til að leggja sitt á vogarskálarnar?

    26.7.2009, kl. 9:02 | #

Skrifa athugasemd

*Nafn:

*Netfang:

Vefsíða:

Athugasemd:

*Hvað er 4 + 2? (til að fyrirbyggja ruslpóst)

 

Smugan er opinn og frjáls umræðuvettvangur. Allir geta gert athugsemdir við það efni sem birtist á síðunni.. Ritstjórn áskilur sér rétt til þess að fjarlægja athugasemdir sem hún telur ekki hæfar til birtingar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband