Davíð og Icesave á Skjánum. Skemmdarverkamennirnir.



 

Ég stóðst ekki þá freistingu að birta þennan pistil míns gamla kennara!

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar grein um hina raunverulegu skemmdarverkamenn í Icesave:

— — —

SKEMMDARVERK

Í spjalli sínu við Sölva Tryggvason á Skjá einum (25.09.09) sagði nýráðinn ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, að Icesave-málið væri “eitt mesta skemmdarverk sem á Íslandi hefur dunið.”

Þetta má til sanns vegar færa, þótt orðalag ritstjórans sé ögn villandi. Icesave-málið dundi ekki yfir Íslendinga. Icesave-reikningurinn upp á ca. 700 milljarða króna er bein afleiðing af ákvörðunum eigenda og forráðamanna Landsbanka Íslands, þeirra Björgólfs Guðmundssonar og Kjartans Gunnarssonar, varaformanns bankaráðs og fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og bankastjóra í þeirra þjónustu.

Sú ákvörðun þessara manna að leysa endurfjármögnunarþörf á óhóflegu skuldasafni bankans með því að stofna útibú Landsbankans í Bretlandi og Hollandi, þýddi að bankaleyfið, eftirlitið og lágmarksinnistæðutrygging sparifjáreigenda var á ábyrgð íslenskra eftirlitsstofnana og íslenska tryggingasjóðsins.

Ef þessir einstaklingar hefðu farið að fordæmi Kaupþingsmanna og rekið þessa fjáröflunarstarfsemi sína í formi dótturfélags en ekki útibús, þá lægi enginn Icesave-reikningur fyrir Alþingi Íslendinga með kröfu um ríkisábyrgð. Þá væri einfaldlega enginn Icesave-reikningur til. Hvort tveggja, eftirlitið og lágmarkstrygging innistæðna, hefði verið á ábyrgð viðeigandi stofnana í Bretlandi og Hollandi.

Kostaboð

Í skýrslu sem tveir lagaprófessorar unnu fyrir neðri deild hollenska þingsins er reyndar upplýst, að hollensk og bresk stjórnvöld höfðu af því þungar áhyggjur, að fall Landsbankans gæti hrundið af stað áhlaupi á bankakerfi þessara landa. Til þess að fyrirbyggja þá hættu buðust eftirlitsstofnanir Hollendinga og Breta til að taka að sér eftirlitið og innistæðutrygginguna, og létta þar með hvoru tveggja af veikburða eftirlitsstofnunum Íslendinga og tryggingasjóði.

Forráðamenn Landsbankans höfnuðu þessum kostaboðum, enda sögðust þeir í bréfi til hollenska Seðlabankans og FME í sept. 2008, hafa “vissu fyrir því, að íslenska ríkið myndi ábyrgjast lágmarksinnistæður í íslenskum bönkum.” Vitað er, að FME gerði tilraun til að fá forráðamenn Landsbankans til að taka sönsum, en án árangurs. Sjálfur hefur Davíð Oddsson, fv. seðlabankastjóri, látið hafa eftir sér í fjölmiðlum, að forráðamenn Landsbankans hafi lofað því að færa þessa fjáröflunarstarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi yfir í dótturfélög og þar með á ábyrgð þarlendra stofnana. Því miður hafi þeir ekki staðið við gefin loforð.

Ef forráðamenn Landsbankans, þeir Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson, fv.framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, hefðu staðið við loforð sín, þá væri enginn Icesave-reikningur. Ef forráðamenn íslensku eftirlitsstofnananna, þ.e. FME og Seðlabankans, hefðu fylgt eftir kröfum sínum um að breyta netútibúunum í dótturfélög af því harðfylgi, sem Davíð Oddsson er þekktur fyrir, þá væri enginn Icesave-reikningur. Ef íslensku eftirlitsstofnanirnar hefðu beitt valdi sínu og lagaheimildum (sbr. 36.gr. l. um fjármálafyrirtæki) , og knúið forráðamenn Landsbankans til þess að taka kostaboðum hollenskra og breskra stjórnvalda í tæka tíð, þá væri enginn Icesave-reikningur.

Á fyrrihluta árs 2008 höfðu forráðamenn bæði Landsbanka og Seðlabanka fengið grafalvarlegar viðvaranir frá dómbærum aðilum um að hætta væri á ferðum. Í febrúar 2008 gerði eftirlitsfyrirtækið Moody´s alvarlegar athugasemdir við Icesave-innlán Landsbankans á fundi með Davíð Oddssyni, seðlabankastjóra o.fl., sbr. minnisblöð Seðlabankans dags.12. feb.2008.

Spilaborg

Í apríl 2008 fengu forráðamenn Landsbankans í hendur úttekt á íslenska bankakerfinu frá alþjóðlega viðurkenndum sérfræðingum, þeim Buiter og Sibert. Þar er viðskiptamódeli íslensku bankanna, botnlausri skuldsetningu í erlendum gjaldeyri með veikburða seðlabanka að bakhjarli og gríðarlega gengisáhættu, lýst sem spilaborg, sem væri að hruni komin. Þar var mælt með því, að Icesave-útibúum yrðu þegar í stað breytt í dótturfélög og höfuðstöðvar bankanna færðar á stærra myntsvæði, þar sem meginþungi starfseminnar var þegar fyrir. Vitað er, að fulltrúar Seðlabanka og Fjármálaráðuneytis fengu þessa skýrslu í hendur og hlýddu á viðvörunarorð höfundanna.

Tíföldun bankakerfisins umfram þjóðarframleiðslu á innan við 6 árum eftir einkavæðingu og meðfylgjandi skuldasöfnun í erlendum gjaldeyri, sem sló heimsmet, var reyndar svo risavaxið mál, að það hefði átt að vera meginviðfangsefni stjórnvalda í hagstjórninni að fyrirbyggja yfirvofandi banka- og gengishrun með þeim úrræðum, sem m.a. Buiter og Sibert mæltu með. Ef Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, hefðu gripið til aðgerða, eins og þeirra sem Buiter og Sibert mæltu með, þá væri enginn Icesave-reikningur.

Í sjónvarpsspjallinu á Skjá einum, sem vitnað var til í upphafi, kenndi hinn nýráðni ritstjóri Morgunblaðsins Icesave-málið við skemmdarverk. Það má til sanns vegar færa, þótt nú sé í tísku að kenna slíka iðju við hryðjuverk. En hryðjuverk verða ekki til af sjálfu sér. Þeir sem þau vinna kallast hryðjuverkamenn. Af einhverjum ástæðum komst það lítt til skila í spjalli ritstjórans, hverjir höfðu verið þarna að verki. Vonandi bætir þessi greinarstúfur aðeins úr því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband